Búa til börn úr erfðaefni þriggja

Munu börn framtíðarinnar eiga þrjá foreldra?
Munu börn framtíðarinnar eiga þrjá foreldra? AFP

Bretland verður hugsanlega fyrsta landið í heiminum til að leyfa tæknifrjóvgun með erfðaefni þriggja manneskja en ríkisstjórnin hefur lýst yfir stuðningi við þessa tækni.

Stjórnin mun nú láta vinna drög að regluverki. Hugsanlegt er að tæknin standi fólki svo til boða innan tveggja ára.

Í frétt BBC um málið segir að með því að búa til fósturvísi með erfðaefni þriggja verði hægt að koma í veg fyrir lífshættulega sjúkdóma sem erfast milli móður og barns.

Gagnrýnendur segja aðferðina hins vegar ósiðlega og að með því að leyfa þessa tækni í Bretlandi sé þjóðin komin á „hálan ís“. Þeir segja einnig að þetta geti haft áhrif á pör sem að öðrum kosti myndu ættleiða er notast við gjafaegg.

Sjúkdómarnir sem talið er að tæknin muni geta útrýmt eru í svokölluðum hvatberum fruma  (e. mitochondria). Hvatberar eru nokkurs konar líffræðilegar orkustöðvar. Hvatberarnir fara frá móður til barns strax í egginu.

Gallaðir hvatberar finnast í einu af hverju 6.500 börnum, segir í frétt BBC. Þeir geta m.a. valdið því að börn verða blind, hafa áhrif á vöðvastyrk, geta valdið hjartagöllum og jafnvel dauða.

En með því að nota hvatbera úr eggi annarrar konu megi koma í veg fyrir sjúkdóma sem þessa.

Tíu bresk pör á ári eru talin geta notið góðs af tækninni. Hún felur í sér að nota egg og sæði frá foreldrum en hvatbera úr eggi annarrar konu og þar með þriðja aðila. Þannig er hægt að búa til barn úr kjarnaefni þriggja einstaklinga.

Sjá ítarlega grein um málið á vef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert