Sólarorkan farin úr böndunum í Þýskalandi

Sólarsellur þýska framleiðandans Conergy í Frankfurt an der Oder. Fyrirtækið …
Sólarsellur þýska framleiðandans Conergy í Frankfurt an der Oder. Fyrirtækið sótti um gjaldþrotaskipti nú í júlí og er því nýjasta fórnarlambið í iðnaðinum. AFP

Ríkisstyrkir vegna framleiðslu sólarorku verða aflagðir í Þýskalandi innan næstu 5 ára, að sögn Peter Altmaier umhverfisráðherra landsins. Niðurgreiðslur á sólarorku séu farnar úr böndunum.

Altmaier hefur um hríð barist fyrir því að sett verði þak á ríkisstyrki til sólarorkunýtingar.

Sólarsellur framleiða í dag um 34 gígavött af orku og í dag tilkynnti Altmaier að ríkið muni hætta niðurgreiðslum þegar framleiðslan nemur 52 Gw. Áætlað er að þeim áfanga verði náð 2017 eða 2018.

Niðurgreiðslur ollu þenslu

„Framleiðsla sólarorku fór úr böndunum á síðustu þremur árum,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi í dag. Samkvæmt ríkisstyrkjakerfinu sem verið hefur við lýði í Þýskalandi fá framleiðendur sólarorku greidda fasta summu fyrir hverja kílóvattstund sem framleidd er af sólarorku. Þetta hefur orsakað þenslu og er Þýskaland orðið leiðandi á heimsvísu í sólarorkuframleiðslu.

Hátt hlutfall styrkjanna rennur til landbúnaðarins, þar sem bændur gripu tækifærið og hófu framleiðslu sólarorku til að afla aukinna tekna. Þá hefur framboð á ódýrum sólarsellum frá Asíu ýtt undir bóluna. Þetta hefur valdið viðskiptadeilum milli Kína og Evrópusambandsins, en hið síðarnefnda sakar Kínverja um að undirbjóða markaðinn.

80% orkunnar verði sjálfbær

Ríkisstyrkirnir voru réttlættir með vísan til áherslu Þýskalands á „græna byltingu“ í orkumálum enda þar sem kjarnorkuframleiðsla sætir vaxandi gagnrýni. Þýsk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að 80% af orkuframleiðslu landsins verði sjálfbær fyrir árið 2050.

Sólarorka hefur hins vegar reynst afar óáreiðanleg auðlind auk þess sem offramboð og hörð samkeppni frá Asíu hefur haft mikil áhrif á markaðinn. Bylgja gjaldþrota hefur  riðið yfir sólarorkuiðnaðinn í Þýskalandi. Árið 2012 fækkaði starfsfólki í sólarorkuiðnaði landsins úr 110.900 í 87.000 og sala á sólarorku dróst saman um 11,9 milljarða evra.

Sólarsellur.
Sólarsellur. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert