Fyrsti þrívíddarprentarinn fyrir almennan markað er kominn í sölu, en hægt er að prenta allt frá símahulstrum yfir í skó eða skartgripi. Prentarinn, sem kallast Maplin K8200, kostar um 700 sterlingspund, eða sem nemur 132 þúsund krónum og er hann nú þegar uppseldur í vefverslun framleiðandans. Allavega 30 daga bið er eftir næstu sendingu.
Í frétt Guardian er sagt að með slíkum prentara taki um 30 mínútur að prenta út símahulstur, meðan prentun á flóknum skartgripum geti tekið allt að nokkrum klukkustundum.
Sala á prenturum sem þessum er þó ekki laus við alla gagnrýni, því nýlega náði nemandi einn í Bandaríkjunum að hanna og prenta út skammbyssu sem virkaði. Hann setti seinna uppskriftina á netið og var hún öllum aðgengileg.