Vill banna reykingar í almenningsgörðum

"Reykingar drepa," sagði heilbrigðisráðherrann. AFP

Tilmæli franska heilbrigðisráðherrans um að bannað verði að reykja í almenningsgörðum og á ströndum landsins hefur vakið mikil viðbrögð.

Heilbrigðisráðherrann Marisol Touraine sagði í blaðaviðtali að hún vildi sjá fleiri reyklaus svæði til að vernda börn gegn óbeinum reykingum. Hún sagðist einnig vilja láta banna reykingar fyrir utan skóla og á háskólasvæðum.

Þegar eru reykingar bannaðar á nokkrum ströndum landsins að frumkvæði borgaryfirvalda á hverjum stað.

Árið 2011 var t.d. bannað að reykja við Miðjarðarhafsströnd bæjarins La Ciotat og varðar brot fjársektum.

Í New York-borg er bannað að reykja í almenningsgörðum og á ströndinni.

„Er eðlilegt að foreldrar og barnapíur reyki í almenningsgörðum þar sem börn eru að leik? Ég held ekki, reykingar drepa,“ sagði ráðherrann í viðtalinu.

Margir hafa fagnað tilmælum ráðherrans en aðrir saka hana um að ganga of langt, segir í frétt BBC um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka