Vinnur að handteiknuðum tölvuleik og larpar

Aru er blanda af górillu og hana
Aru er blanda af górillu og hana

„Þetta er tvívíður, hraðskreiður, hasar, hopp og skopp leikur,“ segir Ingþór Hjálmarsson sem nú vinnur að gerð tölvuleiks ásamt þeim Tyrfingi Sigurðssyni, Ágústi Frey Kristinssyni og Burkna. J. Óskarssyni, en leikinn má telja nokkuð merkilegan fyrir þær sakir að hann er handteiknaður frá grunni.

„Allar hreyfingar, allt umhverfi og hver einasti rammi er teiknaður með hendinni,“segir Ingþór, en gríðarlega mikil vinna liggur þar að baki. „Mesta vinnan fer í teikningarnar. Í fyrstu vorum við þrír forritarar á móti einum listamanni, en í dag erum við þrír forritarar á móti fjórum til fimm listamönnum.“

Meistarinn er górilla og hani

Leikurinn heitir Aaru's Awakening og segir Ingþór hann helst líkjast gömlu Mario Bros leikjunum. „Í leiknum ert þú karakterinn Aru, en hann er einhvers konar samblanda af górillu og hana, en hann er svokallaður meistari morgunsins.“ Leikurinn gerist í heimi sem nefnist Lumenox, sem aftur samanstendur af fjórum heimum sem draga nafn sitt af mismunandi tímum dagsins; sólarupprás, dagur, sólsetur og nótt (e. dawn, day, dusk og night). Þar á hver heimur sér guð og hver guð á sér meistara.

Unnu Game Creator keppnina

Hugmyndin spratt upp úr skólaverkefni sem Ingþór og Tyrfingur unnu að í leikjahönnunaráfanga í Háskólanum í Reykjavík. „Við ætluðum að búa til leik á tveimur vikum og þar gerðum við eitt grunn bragðið í leiknum, það er að þú getur skotið út kúlu og síðan birst á henni hvar sem er. Þetta vatt síðan svona upp á sig.“ 

Strákarnir fengu hæstu einkunn í þeim áfanga og unnu í kjölfarið íslensku leikjagerðarkeppnina Game Creator. „Um það leytið fórum við að leita af listamanni og fundum hann Ágúst, sem þá hafði búið til Space Stallions, sem sló í gegn á youtube síðunni.“ Burkni bættist síðan í hópinn, en þá hafði hann meðal annars forritað leikinn Stafakarlana, og stofnuðu þeir félagar saman fyrirtækið Lumenox games fyrir verðlaunin sem þeir unnu í Game creator keppninni og fengu vinnuaðstöðu í Nýsköpunarmiðstöðinni.

Háleit markmið

Strákarnir gera ráð fyrir að klára leikinn í kringum september, en útgáfan verður sennilega í nóvember til desember. Þá segir hann markmiðin vera háleit hvað útgáfu varðar. „Til þess að byrja með verður leikurinn gefinn út fyrir PC, Mac og Linux tölvur, en við höfum aðeins verið að pota í leikjatölvunar, það er Playstation, Xbox og Wii. Það er ekkert fast með það, en þó er hægt að segja að það sé ekki steindautt.“

Vinnan við tölvuleikinn hefur farið fram samhliða námi hjá Ingþóri og í mörgu hefur hann því haft að snúast. „Við gerðum leikinn að lokaverkefninu okkar í HR og fengum þar 9,5 fyrir. Einkunnin skiptir kannski ekki höfuðmáli fyrir fréttina, en það er nú ágætt að það komi fram,“ segir hann glettinn.

Klæðir sig í búning og setur bardaga á svið

Ingþór hefur verið forfallinn áhugamaður um tölvuleiki síðan hann man eftir sér, en áhuginn hefur brotist fram á fleiri sviðum en í tölvuleikjagerð, þar sem hann hefur einnig mjög gaman af svokölluðu Larpi (e. live action role play). Larp er eins konar hlutverkaleikur, þar sem menn klæðast klæðast gjarnan búningum og setja á svið bardaga. „Ég tek það á mig að hafa larpað töluvert,“ segir hann. „Ég hef verið í skapandi sumarstörfum hjá Kópavogsbæ og þar byrjuðum við á því. Allir í sumarstörfunum velkomnir og fleiri boðnir með.“

Þá segir hann tölvuleikjaáhugann og larpið yfirleitt haldast að einhverju leyti í hendur. „Ef þú ert larpari eru mjög sterkar líkur á að þú sért líka tölvuleikjagæi.“

Að sögn Ingþórs gengur larpið þannig fyrir sig að menn hittast á einhverjum velli, skipt er í lið og leikstíl er ákveðinn. „Vinsælasta týpan í larpinu er áflogið. Þá eru tvö lið sem hlaupa á móti hvoru öðru þannig að áflog verða að lokum. Það lið sem hefur síðasta manninn standandi er sigurvegari.“ 

„Líkt og atriði úr Íslendingasögunum“

Hann neitar því að menn slasi sig alvarlega í áflogunum, en viðurkennir þó að menn geti meitt sig smávægilega. „Vopnið er vanalega prik, en á því er bandspotti með kúlu á endanum. Ég hef oft slegið menn í punginn með þessu. Það er nú alveg skelfilegt og líkast því að fá boxpúða í punginn.“

Eftirlætis leikstíllinn hans er einvígið, en það segir hann helst minna á atriði úr Íslendingasögunum. „Þá er einn á móti einum og allir fylgjast með og hvetja. Ég hef yfirleitt staðið mig vel í því. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að einhver komi og stingi þig í bakið.“

Í sumar hafa þeir Ingþór og Tyrfingur verið að vinna að kennslumyndböndum um tölvuleikjagerð. „Með þessu viljum við gera öllum kleift að búa til leiki. Fólk veit oft ekki hvernig það á að byrja og við erum því að gera upphafsskrefið örlítið styttra.“ Síðan með kennslumyndböndunum var formlega opnuð í dag, en hægt er að horfa á þau á síðunni loleikjagerd.com.

 Hér má sjá kynningarmyndband Aaru's Awakening:

Allir rammar í leiknum eru handteiknaðir
Allir rammar í leiknum eru handteiknaðir
Ingþór Hjálmarsson
Ingþór Hjálmarsson
Í leiknum eru fjórir heimar sem Aru þarf að fara …
Í leiknum eru fjórir heimar sem Aru þarf að fara í gegnum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert