Hægt hefur á sölu spjaldtölva en talið er að það megi jafnvel rekja til þess að beðið er eftir nýrri gerð iPad spjaldtölva síðar á árinu, samkvæmt nýrri skýrslu IDC (International Data Corporation).
Skýrsla IDC er birt á svipuðum tíma og ráðgjafa- og rannsóknarfyrirtækið Forrester birti spá um að spjaldtölvusala myndi aukast áfram á næstu árum á heimsvísu.
Sala á spjaldtölvum dróst saman um 9,7% á öðrum ársfjórðungi frá ársfjórðungnum á undan, samkvæmt tölum IDC. Hins vegar er salan 60% meiri en hún var á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Alls voru seldar 45,1 milljón spjaldtölva á síðasta ársfjórðungi í heiminum.
Apple hefur undanfarin ár kynnt nýjungar á fyrri hluta ársins en nú mun nýr iPad vera kynntur til sögunnar undir lok árs. Segir í skýrslu IDC að í hvert skipti sem ný útgáfa iPad er sett á markað veki það væntingar meðal neytenda. Það hafi ekki bara komið sér vel fyrir Apple heldur einnig keppinautana þar sem spjaldtölvusala hefur aukist í kjölfarið.