Vísindamenn afhjúpuðu í dag fyrsta nautakjötshamborgarann sem ræktaður var á rannsóknarstofu. Sjálfboðaliðar í London fengu að bragða á borgaranum. Vonast vísindamennirnir til að uppgötvun þeirra muni breyta allri fæðuframleiðslu í heiminum.
Borgarinn var um 140 grömm og kostaði meira en 250 þúsund evrur, eða um 40 milljónir króna að búa hann til. Til framleiðslunnar voru notaðir vöðvaþræðir úr kjöti sem ræktað var úr vöðvafrumum, stofnfrumum, úr lifandi nautgrip.
Saman við þetta kjöt var svo blandað salti, eggjadufti og brauðmylsnu til að bæta bragðið. Vísindamennirnir fullyrða að hann bragðist eins og hver annar hamborgari.
Mark Post, prófessor við Maastricht-háskólann í Hollandi, segir að óhætt sé að borða borgarann. Sambærilegt kjöt geti í framtíðinni komið í staðinn fyrir hið hefðbundna og orðið hluti af daglegu mataræði milljóna manna.
Tveir sjálfboðaliðar fengu að bragða á borgaranum á blaðamannafundi í dag, bandaríski matreiðslubókahöfundurinn Josh Schonwald og austuríski matvælafræðingurinn Hanni Ruetzler.
Eftir að þau tóku bita af borgaranum sagði Ruetzler: „Ég átti von á því að áferðin yrði mýkri, ég veit að það er engin fita í þessu svo ég veit ekki hversu „djúsí“ hann er. Þetta er líkt kjöti. En ekki djúsí. En ég vildi gjarnan fá meira salt og pipar!“
Sergey Brin, einn af stofnendum Google, er einn þeirra sem fjármagnar verkefnið.
„Stundum þegar þegar ný tækni kemur til þá breytir hún sýn okkar á heiminn,“ segir hann.
Margir hafa orðið áhyggjur af því að kröfur um aukna kjötframleiðslu séu að valda jörðinni skaða. Mikið af ræktuðu landi þurfi til að ala nautgripi og gas frá þeim hafi áhrif á magn gróðurhúsalofttegunda.
„Það sem við erum að reyna er mikilvægt og ég vona að þetta geti orðið svarið við mörgum stórum vandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir,“ segir Post prófessor.
Vísindamennirnir tóku vöðvafrumur úr lifandi kú og settu þær í næringarlausn til að búa til vöðvavef. Úr þeim kjötþráðum var svo borgarinn gerður.
En kostnaðurinn er gríðarlegur. Hins vegar er líklegt að hann verði minni eftir því sem tækninni fer fram og segja vísindamennirnir að hugsanlega verði ræktað kjöt sem þetta á boðstólum í verslunum eftir um 1-2 áratugi.