Athafnamaðurinn Kim Dotcom, stofnandi niðurhalssíðanna Megaupload og Mega, tilkynnti nýverið að hann hafi í hyggju að flytja hluta af starfsemi sinni til Íslands. Með þessu vill hann tryggja öryggi viðskiptavina síðanna en Kim telur Ísland vænlegan kost í þessum málum. Í dag er fyrirtækið staðsett á Nýja Sjálandi.
Kim Dotcom segir í samtali við síðuna Torrentfreak.com að verði ný lög samþykkt á Nýja Sjálandi, sjái hann sér þann kost vænstan að flytja starfssemi Mega annað. Hann segir einnig að yfirvöld í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og á Nýja Sjálandi þrýsti nú saman á nýja njósnalöggjöf sem veiti þeim frekari frekari aðgang að upplýsingum sem eru til staðar á netinu.
Öll skjöl sem hlaðið er inn á síðuna Mega eru dulkóðuð og veit fyrirtækið jafnvel ekki hvers eðlis gögnin eru. Nái nýja löggjöfin fram að ganga, verður slík starfsemi ekki leyfileg.
Kim segist helst horfa til minni landa, sérstaklega til þeirra sem eigi fáa óvini.
Ísland er þó vænlegast í augum hans. „Ísland er vinalegt lítil land sem á sér ekki óvini,“ segir hann í samtali við Torrentfreak.com. „Þeir njósna ekki um heiminn og þeim er alveg sama.“ Hann segir að nú standi lönd eins og Íslands frammi fyrir ýmsum tækifærum þegar fyrirtæki sem þessi í Bandaríkjunum leiti að nýrri staðsetningu.