Uppfærð útgáfa af Windows 8 stýrikerfinu verður gefin út 18. október næstkomandi, en í nýju útgáfunni, sem mun nefnast Windows 8,1, mun start-takkinn koma aftur, en hann var tekinn í burtu þegar Windows 8 kerfið var gefið út. Uppfærslan verður ókeypis fyrir þá sem nú þegar eiga Windows 8 kerfið.
Einnig mun Internet Explorer 11 verða með í nýja kerfinu, Bing leitarkerfið, betrumbætt Windows búð í gegnum netið og tenging við SkyDrive þjónustuna.
Microsoft hefur mikið verið gagnrýnt fyrir Windows 8, sem átti að sameina eitt stýrikerfi á bæði snertitæki og heimilistölvur. Segja sérfræðingar að fyrirtækið hafi verið neytt til að bæta aftur start-takkanum við, en fjölmargir viðskiptavinir höfðu kvartað yfir þeirri breytingu. Windows 8 hefur verið selt í meira en 100 milljón eintökum.