Nýtt glerstórhýsi í miðborg London sem kallað er „Walkie Talkie“ kastar frá sér svo miklu sólarljósi að það hefur náð bræða bíl í nálægri götu. Martin Lindsay, sem á svartan Jagúar, varð fyrir tjóni vegna byggingarinnar.
Lindsay lagði bíl sínum nærri byggingunni í síðustu viku. Þegar hann kom að bílnum tveimur tímum síðar sá hann að hlutir í bílnum höfðu bráðnað, m.a. kringum hliðarspegla og toppur bílsins. Eigendur byggingarinnar hafa beðist afsökunar á þessu og boðist til að bæta tjónið.
„Walkie Talkie“ er 37 hæða bygging. Framkvæmdum er ekki lokið. Lögun byggingarinnar er þannig að hún endurkastar sólarljósinu niður á götuna. Á sólríkum og heitum dögum virðist því geta myndast gríðarlegur hiti sem getur meira að segja skemmt bíla.