Þykkt hafíss á norðurskautinu náði nýju lágmarki síðastliðinn vetur, samkvæmt rannsókn Evrópsku geimvísindastofnunarinnar, ESA. Í 3 ár hefur stofnunin haldið úti verkefninu Cryosat, fylgst er með hafís með hjálp radarmælinga úr geimnum og hefur hann þynnst öll árin.
Í mars og apríl í vor, á þeim tíma árs þegar rekís á norðurskautinu er jafnan mestur, mældist hann rétt undir 15.000 rúmkílómetrum. Fyrir um 30 árum var algengt að á þessum tíma næmi rekísinn um 30.000 rúmkílómetrum.
Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnunni ESA's Living Planet sem stendur nú yfir í Edinborg.
BBC hefur eftir vísindamönnum ESA að þetta sýni langvarandi þynningu rekíss. Þeir segja að ekki sé nóg að skoða hversu ísinn breiðir úr sé, heldur sé þykkt rekíssins mun áreiðanlegra mælitæki til að leggja mat á þær breytingar sem eigi sér stað á norðurskautinu.
Rachel Tilling, sem vinnur úr gögnunum við University College í London, segir í samtali við BBC að þegar ísbreiðurnar tekur að frysta að nýju með haustinu geti Cryosat staðfest hvernig staða rekíssins var í sumar.
Prófessor Alan O'Neill, sem er forstöðumaður ráðgjafanefndar ESA í jarðvísindum, segir að lykilspurningin nú sé hvað það er sem valdi því að rekísinn þynnist.
„Þetta er svo sannarlega í samræmi við það sem við mátti búast miðað hvað varðar loftslagsbreytingar, en við verðum líka að öðlast betri skilning á þeim náttúrulegu breytingum sem geta átt sér stað á löngum tíma, kannski áratugum. Cryosat getur líka hjálpað okkur að byrja að skilja það.“
Stefnt er að því að Cryosat haldi áfram að fljúga um geiminn um ókomin ár en að óbreyttu hefur það búnað til að halda áfram mælingum til ársins 2020 hið minnsta.
Myndskeið frá ESA sem sýnir umfang rekíssins má sjá hér að neðan: