Takmarka notkun lífræns eldneytis

Markmið ESB með því að setja ákvæði um notkun lífræns …
Markmið ESB með því að setja ákvæði um notkun lífræns eldsneytis er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda. KI PRICE

Evrópuþingið samþykkti í dag tillögu um að setja sérstakt þak á notkun lífræns eldsneytis úr korni. Tillagan var samþykkt með 356 atkvæðum gegn 327.

Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að 10% af eldsneyti sem notað er innan ESB árið 2020 verði lífrænt eldsneyti. Það hefur hins vegar gætt vaxandi gagnrýni á að landbúnaðarland sé notað til að framleiða eldsneyti, því það þýði að verið sé að brenna mat í stað þess að neyta fæðunnar. Einnig benda rannsóknir til að með því að brjóta land til að rækta lífrænt eldsneyti losni umtalsvert magn af gróðurhúsalofttegundum, en tilgangurinn með að auka notkun lífræns eldsneytis er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Tillagan sem samþykkt var í Evrópuþinginu í dag felur í sér að áfram verði stefnt að því að lífrænt eldsneyti verði 10% af því eldsneyti sem notað verði í ESB árið 2020, en að aðeins 6% af eldsneytinu megi koma af ræktuðu landi sem sérstaklega er notað til að framleiða eldsneyti.

Hægt er að framleiða lífreynt eldsneyti með öðrum hætti, m.a. úr úrgangi frá landbúnaði, úr skólpi og úr þangi.

Samþykkt Evrópuþingsins öðlast ekki lagagildi fyrr en öll 28-ESB ríkin hafa staðfest niðurstöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert