Bjór rannsókn hlýtur Ig Nóbelinn

AFP

Vísindamenn sem komust að þeirri niðurstöðu að einstaklingar telji að þeir séu mun meira aðlaðandi eftir að hafa innbyrt áfengi hafa hlotið Ig Nóbelsverðlaunin í ár. 

Vísindamennirnir, sem koma frá Frakklandi og Bandaríkjunum, staðfestu að svokölluð „bjóraugnaáhrif“ (e. beer goggle effect) virki einnig á mann sjálfan. Rannsóknin ber titilinn „Beauty is in the eye of the beer holder“, sem útleggja mætti á íslensku sem „Fegurðin býr í auga þess sem heldur á bjórglasinu“. Fjallað er um þetta á vef breska ríkisútvarpsins.

Ig Nóbelsverðlaunin eru veitt í gamansömum tilgangi enda skopstæling á hinum hefðbundnu Nóbelsverðlaunum. Markmiðið að vekja athygli á furðulegum rannsóknum og uppfinningum vísindamanna.

Verðlaunahafar fá eina mínútu til að halda þakkarræðu. Eftir það byrjar átta ára gömul stúlka að baula á þá. 

Verðlaunin eru veitt við viðhöfn í Harvard-háskólanum í Bandaríkjunum. 

Meðal annarra verðlaunahafa má nefna vísindamenn sem fengu einkaleyfi á aðferð til að klófesta og skjóta flugræningjum út úr flugvélum. Þá fengu breskir vísindamenn verðlaun fyrir að veita því eftirtekt að kú muni standa upp ef hún hefur legið lengi.

Loks má geta þess, að forseti Hvíta-Rússlands og ríkislögreglan þar í landi fengu friðarverðlaun fyrir að banna lófaklapp á opinberum stöðum. Sérstaklega er vikið að því að hvítrússnesku lögreglunni tókst að handtaka einhentan mann sem braut bannið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert