Ef það ætti að fæða allan heiminn á grundvelli lífrænnar ræktunar þyrfti að eyða öllum regnskógum jarðar. Þessi fullyrðing var sett fram af fréttamanni BBC í fréttaskýringarþættinum Newsnight þar sem fjallað var um fjölgun mannkyns og fæðuframboð.
Í þættinum var bent á þá staðreynd að íbúum jarðar fjölgar hratt og að það verður ögrandi verkefni að tryggja fæðu handa öllum jarðarbúum til framtíðar. Jafnframt var fullyrt að ríkar þjóðir færu almennt betur með umhverfið en fátækar þjóðir.
Íbúafjöldi jarðar var um 3 milljarðar árið 1960, en jarðarbúar eru núna rúmlega 7 milljarðar. Því er spáð að jarðarbúar verði orðnir 8 milljarðar árið 2024 og yfir 10 milljarðar árið 2100.
Hvernig á að tryggja fjölgandi jarðarbúum nægan mat? Niðurstaða umræðna sem fram fóru á Newsnight var að þetta yrði ekki gert án tækniframfara. Þetta væri ekki hægt með afturhvarfi til aðferða eins og t.d. lífrænnar ræktunar. Ástæðan er sú að lífræn ræktun skilar ekki eins mikilli uppskeru og hefðbundin landbúnaðarframleiðsla. Það þyrfti því að taka meira land undir ræktun með tilheyrandi álagi fyrir umhverfi og dýralíf. Jafnvel þó að regnskógarnir yrðu teknir undir lífræna ræktun myndi uppskeran ekki duga til að framleiða mat fyrir fjölgandi jarðarbúa.
Samkvæmt umsögn sem auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands sendi til Alþingis árið 2011 vegna þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi skilar lífræn ræktun „að jafnaði 25 - 50% minni uppskeru en hefðbundin ræktunarkerfi“.
Regnskógarnir hafa minnkað á liðnum árum, en það er alls ekki hægt að kenna lífrænni ræktun um það. Þeim stafar fyrst og fremst ógn frá hefðbundnum landbúnaði, fyrirtækjum og fólki sem vill brjóta land annars konar nota.
Í Newsnight var einnig fjallað um erfðabreytt matvæli og hvaða hlutverki þau myndu gegna í framtíðinni við að koma í veg fyrir hungur í heiminum. Tortryggni gætir hjá mörgum út í erfðabreytta ræktun. Mikið er búið að rannsaka hvort slík matvæli geti á einhvern hátt verið hættuleg. Ekki hefur enn tekist með vísindalegum hætti að sýna fram á að erfðabreytt matvæli ógni heilsu manna.
Þegar rætt er um hungur í heiminum benda margir á að gríðarlegum miklum mat sé hent í heiminum. Liður í að tryggja öllum næg matvæli sé að draga úr þessari sóun.
Í almennri umræðu um umhverfismál er oft talað um hvernig ríkustu þjóðir heims níðist á umhverfinu og að þær beri meginábyrgð á því sem miður hefur farið í umhverfismálum. Í fréttaskýringu Newsnight var hins vegar horft á þessi mál frá öðru sjónarhorni. Bent var á að fátækt fólk hafi ekki efni á að hugsa um umhverfið. Öll tilvera fátæks fólks gangi út á að eiga fyrir mat, fatnaði og húsaskjóli. Þegar fólk þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af þessum lífsnauðsynjum fari það fyrst að hugsa um umhverfi sitt. Þá fari fólk að leggja áherslu á umhverfismál og náttúruvernd.
Í þættinum var birt gervihnattarmynd af landamærum Dóminíska lýðveldisins og Haiti. Í kringum 1920 er áætlað að yfir 60% Haiti hafi verið skógi vaxið. Nú er skóga að finna á innan við 2% landsins. Staða skóga er allt önnur í Dóminíska lýðveldinu. Enginn vafi leikur á að skógareyðing á Haiti tengist fátækt landsmanna. Meðalárstekjur í Dóminíska lýðveldinu eru um 5.470 dollarar en um 760 dollarar á Haiti.
Án efa má tengja skógareyðingu á Íslandi að nokkru leyti við fátækt landsmanna. Talið er að um 97% upprunalegu skóganna hafi eyðst frá landnámi. Það gerðist síðan ekki fyrr en velmegun hafði aukist á Íslandi sem farið var að verja fjármunum í skógrækt.
Í Newsnight var bent á að á Vesturlöndum hafi orðið miklar framfarir í umhverfismálum á síðustu áratugum. Nefnt var sem dæmi að ár sem voru lífvana vegna mengunar um miðja síðustu öld hafi margar hverjar endurheimt fyrra vistkerfi. Þar sé nú að finna dýralíf sem var nær alveg horfið um tíma. Í þættinum kom jafnframt fram að ekki mætti horfa fram hjá því að Vesturlönd bæru eftir sem áður ábyrgð á losun á stærstum hluta þeirra gróðurhúsalofttegunda sem sleppt er út í umhverfið.