38% fólks, sem er fætt á árunum 1980-2000, skoðar snjallsímann sinn á 10 mínútna fresti. Þessi hópur hefur alist upp við miklar tækniframfarir og hefur allt aðrar væntingar og viðhorf til lífsins heldur en eldri kynslóðir, meðal annars þegar kemur að kauphegðun, að sögn tæknirisans IBM sem mun fjalla um viðskiptavini morgundagsins á morgunverðarfundi í samvinnu við Nýherja þriðjudaginn 1. október.
Í fréttatilkynningu frá Nýherja kemur fram að IBM segi að fólk á þrítugs- og fertugsaldri, verði 50% alls vinnuafls árið 2015 og 75% árið 2025. Hjá IBM starfa rúmlega 400 þúsund manns og stór hópur þess fólks mun tilheyra aldamótakynslóðinni (1980-2000) innan fárra ára. Á morgunverðarfundi Nýherja munu sérfræðingar frá IBM fjalla um hvernig fyrirtæki geti þróast og dafnað í takt við breytingar á hópi starfsmanna og viðskiptavina.
„IBM hefur um árabil rýnt í slíka þróun og telur mikilvægt að aðlaga sig að þeim afgerandi breytingum sem munu verða á vinnumarkaði, vinnustöðum og viðskiptavinum og því hvernig þeir kaupa vöru og þjónustu,“ segir Emil Einarsson framkvæmdastjóri Vörusviðs hjá Nýherja um innihald morgunverðarfundarins næstkomandi þriðjudag.
Ókeypis er á fundinn, en nauðsynlegt er að skrá sig.