Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar segist hafa meiri vissu fyrir því en nokkru sinni áður að mannkynið hafi orsakað hlýnun jarðar og spáir því að á þessari öld hækki hitastig um 0,3-4,8°C til viðbótar.
Nefndin spáir því einnig að yfirborð sjávar muni hækka um 16-82 sentimetra fyrir árið 2100. Skýrsla hópsins var kynnt í Stokkhólmi í dag.
Nefndin segir „ákaflega líklegt“, eða um 95% líkur, að hlýnun jarðar á síðustu sextíu árum sé að stórum hluta af mannavöldum. Í síðustu skýrslu sinni taldi hópurinn um 90% líkur á því.
Náttúruverndarsamtök Íslands segja verkefni dagsins að fá ríkisstjórnir heims, þar á meðal íslensk stjórnvöld, til að taka málið föstum tökum. „Ríkisstjórn Íslands ber umsvifalaust að aflýsa öllum áformum um borun eftir olíu norðan við Ísland. Annað væri fullkomið ábyrgðarleysi,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Skýrslan sem kynnt var í dag er sú fyrsta af þremur sem nefndin mun gefa út á næstunni. Nefndin hefur á 25 ára tímabili gefið út fjórar sambærilegar skýrslur. Hún hefur m.a. fengið Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar.
Í hverri skýrslu hafa varnaðarorð nefndarinnar vegna hlýnunar af mannavöldum stigmagnast. Hefur hún m.a. varað ítrekað við hættu á flóðum, þurrkum, fárviðrum og hækkandi yfirborði sjávar.
Spá nefndarinnar til ársins 2100 er m.a. reiknuð út með tölvuforritum þar sem ótal þættir eru teknir með í reikninginn, s.s. magn gróðurhúsaloftegunda.
Bjartsýnasta spáin gerir ráð fyrir því að hitastig jarðar muni að meðaltali hækka um 1 gráðu til ársins 2100. Sú svartsýnasta gerir ráð fyrir að hitastigið muni hækka um 3,7-4,8 gráður. Vísindamenn telja slíkt geta endað með miklum hörmungum. Það myndi þýða öfgafullar hitabylgjur, miklar rigningar á sumum svæðum en mikla þurrka á öðrum.
Í nefndinni eiga sæti 257 vísindamenn.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, þakkaði nefndinni fyrir að gefa út reglulegar og óhlutdrægar skýrslur um þetta mikilvæga mál.
Hann sagði skýrsluna mikilvægt verkfæri fyrir þjóðir heimsins til að vinna að stefnumörkun í loftslagsmálum. Hann hefur mælt með því að í september á næsta ári verði haldin stór loftslagsráðstefna þar sem þjóðir heims reyni að ná samkomulagi um markmið sín í loftslagsmálum og aðgerðir. Sambærileg ráðstefna var haldin í Kaupmannahöfn árið 2009. Sú ráðstefna er ekki talin hafa skilað nægilegum árangri.