„Með því að kaupa flestallan tæknivarning erum við í það minnsta að taka þátt í ójafnri dreifingu auðæfa um hnöttinn, ef ekki beinlínis að valda þjáningu annars staðar á hnettinum,“ segir í svari á Vísindavefnum við spurningunni: „Er siðferðilega réttlætanlegt að eyða 190.000 kr. í iPhone5?“
Í svari Nönnu Hlínar Halldórsdóttur, doktorsnema í heimspeki, við fyrirspurn Kristbjargar Tinnu Sigurðardóttur segir m.a.: „Þessi spurning leiðir í raun af sér eftirfarandi spurningu: Er siðferðislega réttlætanlegt að taka þátt í kerfi sem að viðheldur ójafnri dreifingu auðs og ójöfnu hlutskipti manneskja? Í það minnsta væri að öllum líkindum siðferðislega réttmætara að borga helmingi meira fyrir iPhone5, eða aðrar tæknivörur af sama tagi, ef það myndi tryggja efnahagslega velferð frumframleiðenda vörunnar.“
Nanna bendir á að kaup á 190.000 kr. snjallsímum séu alla jafna samþykkt á Íslandi, svo framarlega sem einstaklingur hafi efni á símanum.
„En þótt eitthvað sé siðferðislega réttmætt á einum tímapunkti þá þarf það ekki að þýða að svo muni alltaf verða. Við erum ekki alltaf sátt við ríkjandi siðferði í okkar samfélagi og siðfræðin gengur einmitt út á að huga að því hvaða hugsjónir við höfum um siðferðislega rétta breytni. Ein slík hugsjón gæti gengið út á að viðhalda ekki kerfi sem gangi út á einhvers konar ójöfnuð eða valdi, og jafnvel viðhaldi, þjáningu sumra,“ segir í svarinu.
Það sé því áhugavert að spyrja sig aftur að því hvort kaup á svona vöru komi einhverjum öðrum við en bara okkur og okkar buddu.
„Til þess að svara þessu er hægt að líta til hugmyndar Karls Marx um svonefnt blætiseðli vörunnar. Hana er að finna í ritinu Auðmagnið. Hugmyndin gengur ekki beint út á aðdráttarafl söluvörunnar sjálfrar eins og svo margir halda; hvað það er sem fær okkur til þess að neyta varnings í því magni sem við gerum. Blætiseðli vörunnar varpar ljósi á hvernig að söluvörur og peningar öðlast sjálfstæða tilvist í hugum okkar. Vegna blætiseðlisins er eins og iPhone-inn og kreditkortið okkar eigi í samskiptum, frekar en við sjálf og það fólk sem býr til og selur vöruna,“ skrifar Nanna.
Hún tekur fram, að þannig hylji blætiseðli vörunnar þá staðreynd að þegar menn kaupi hluti þá séu þeir í raun í samskiptum við fólk víðsvegar á jörðinni. Í tilfelli iPhone-símans eigum við meðal annars í samskiptum við sölufólk Apple-fyrirtækisins, þá sem búa til iPhone, þá sem forrita hugbúnað símans og þá sem vinna að frumframleiðslu vörunnar.
Þá segir hún, að um það leyti sem iPhone 5 var settur á markað árið 2012 hafi mjög fáar af þeim 190.000 íslensku krónum runnið í vasa frumframleiðanda vörunnar.
„Frumframleiðendur tæknivarnings búa oftast í Asíu, aðallega í Kína. Verðlag er oftar en ekki allt annað í Kína og þeim Asíulöndum sem framleiða tæknivörur en á Íslandi. Þar er mun ódýrara að lifa en engu að síður er kaupmáttur launa þar mun minni. Að venju eru vinnudagarnir þar tólf klukkustundir og unnið sex daga í viku,“ skrifar hún.
„Með því að kaupa flestallan tæknivarning erum við í það minnsta að taka þátt í ójafnri dreifingu auðæfa um hnöttinn, ef ekki beinlínis að valda þjáningu annars staðar á hnettinum. Ef við drögum siðferðislega réttlætingu þess að kaupa iPhone5 í efa á þessum forsendum þá verðum við einnig að draga siðferðislega réttlætingu þess að kaupa nánast allan tæknivarning í efa, því flestöll fjölþjóða stórfyrirtæki hafa svipað skipulag og Apple. Mörg slík stórfyrirtæki hafa unnið að því að bæta aðstæður verkafólks og þá sérstaklega þegar hneykslismál um vinnukjör þeirra koma upp. En jafnvel þegar lágmarkslaun í löndum á borð við Kína eru tryggð þá er misskipting auðs á hnattræna vísu mikil,“ segir ennfremur í svarinu.