Samsung kynnti á dögunum nýtt snjallsjónvarp á IFA sýningunni í Þýskalandi. Það væri eflaust ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Samsung notaðist við myndir frá Íslandi til að sýna gestum og gangandi þá gríðarlegu upplausn sem tækið býður upp á.
Þetta er ekki eina sýningin þar sem Samsung hefur notast við Íslandsmyndir því snjallsjónvarpið, Samsung UHD 3D, hefur víða um heim verið kynnt með myndum og myndbandi af íslenskri náttúrufegurð.
UHD 3D er í 9905 seríunni og með 4K upplausn sem er fjórfalt meiri upplausn en önnur tæki í fremstu röð á markaðnum bjóða upp á. Þá er það með enn fullkomnari Smart Interaction tækni en áður en hana er hægt að nota til að stjórna tækjunum með tali eða hreyfingum.