Ástand lífríkisins í heimshöfunum versnar hraðar en talið hefur verið til þessa, að því er fram kemur í skýrslu vísindamanna alþjóðlegu stofnunarinnar IPSO. Vísindamennirnir segja að margvíslegar hættur steðji að lífríki hafanna, m.a. ofveiði, mengun, súrnun og hlýnun sjávar. Þeir vara t.a.m. við því að myndast hafa „líffræðilega dauð svæði“ vegna áburðar sem berst í höfin.
Vísindamennirnir segja að haldi ástandið áfram að versna geti það orðið til þess að margar fisktegundir deyi út.
Í skýrslunni kemur fram að höfin eru nú talin súrari en nokkru sinni fyrr í a.m.k. 300 milljónir ára. Með súrnun er átt við breytingar á sýrustigi sjávar vegna aukins magns koldíoxíðs í andrúmslofti jarðar samfara bruna jarðefnaeldsneytis.
Stofnunin skorar á stjórnvöld í ríkjum heims að stemma stigu við losun koldíoxíðs í andrúmsloftið. Fari hún yfir hættumörk geti hún leitt til mikillar súrnunar heimshafanna síðar á öldinni.