Kínverska ríkið hefur rúmar tvær milljónir starfsmanna á sínum snærum, sem fá greitt fyrir að fylgjast með því hvernig almenningur í landinu tjáir sig á vefnum. Ríkisfjölmiðillinn Beijing News greinir frá þessu.
Starfsmennirnir eru flokkaðir sem „sérfræðingar í álitsgjöf á netinu“ samkvæmt því sem fram kemur á vef BBC. Sífellt fleiri nota netið reglulega í Kína og hundruð milljóna Kínverja nota sér samfélagsmiðla, s.k. örblogg í anda Twitter, til að gagnrýna stjórnvöld og tjá óánægju sína með ýmsa hluti.
Nýjar rannsóknir gefa til kynna að samfélagsmiðlum sé ritstýrt af miklum móð í Kína. Í frétt Beijing News segir að ríkisstarfsmönnunum beri ekki endilega skylda til að eyða út færslum.
Hlutverk þeirra sé aðeins að „safna saman og greina almenningsálit á samfélagsmiðlum og gefa löggjafanum skýrslur um niðurstöðuna.“ Færslum sem úrskurðaðar eru „pólitískt rangar“ er þó hiklaust eytt út.
Nefnt er dæmi frá daglegum störfum eins þessara starfsmanna, Tang Xiaotao. Hann hefur unnið sem eftirlitsaðili með netinu í tæpa 6 mánuði.
„Hann situr við tölvuna allan daginn og opnar forrit þar sem hann skráir lykilorð sem hann fær útvegað frá vinnuveitendum sínum. Svo fylgist hann með neikvæðum skoðunum sem varða vinnuveitanda hans, safnar saman og skrifar skýrslur.“
Það þykir að sögn BBC óvenjulegt að greint sé frá neteftirlitinu með svo opinskáum hætti, því kínversk stjórnvöld hafa til þessa ekki viljað gefa mikið uppi um hve umfangsmikil netlögreglan er þar í landi.
Talið er að þessar 2 milljónir eftirlitsmanna séu aðeins hluti af gríðarlegum fjölda ríkisstarfsmanna sem stjórnvöld reiða sig á til að hafa stjórn á netinu í þessu fjölmennasta ríki heims.