Hversu mikið munar um lengri svefn?

Fegurðarblundur David Beckham var myndaður fyrir National Portrait Gallery í …
Fegurðarblundur David Beckham var myndaður fyrir National Portrait Gallery í London. AFP

Nætursvefn meðalmannsins hefur styst á síðustu árum. Margir hugsa um svefn sem munað sem megi fórna, en reiða sig á koffín til að halda sér gangandi í staðinn. Hversu mikil áhrif hefur þetta á heilsuna? Vísindamenn við svefnrannsóknarmiðstöðina í Surrey-háskóla vildu komast að því.

Þeir fengu sjö sjálfboðaliða til að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendur sváfu venjulega allt frá 6 og upp í 9 klukkustundir á hverri nóttu, en þeim var skipt tilviljanakennt upp í tvo hópa og var annar látinn sofa í 6,5 klukkustundir á nóttu en hinn svaf 7,5 klukkustundir.

Að viku liðinni voru teknar blóðprufur og hóparnir síðan látnir skipta um svefnmunstur, þannig að þeir sem sofið höfðu 6,5 tíma lengdu nætursvefninn um eina klukkustund, en hinir styttu hann.

Þá voru gerð ýmis próf til að komast að því hvort svefninn hefði áhrif á líðan þeirra. Niðurstöðurnar voru m.a. þær að þátttakendur áttu erfiðara með að leysa greindarpróf á netinu í þeirri viku sem þeir sváfu skemur.

Hafði áhrif á líðan

Vísindamönnunum fannst þó einna áhugaverðast að greina blóðprufurnar og sjá áhrifin sem misjafn svefntími hafði á genin. Þeir komust að því að þegar þátttakendur sváfu klukkustund skemur hafði það örvandi áhrif á gen sem eru talin tengjast bólgumyndun í líkamanum, viðbrögðum ónæmiskerfisins og streituviðbrögðum. Þá sáu vísindamennirnir einnig aukna virkni gena sem tengjast sykursýki og krabbameinsáhættu.

Hið gagnstæða gerðist þegar þátttakendur bættu klukkustund við nætursvefninn. Blaðamaður BBC, sem fylgdist með rannsókninni, segir að af niðurstöðunum megi því draga þá ályktun að ef þú sefur skemur en 7 klukkustundir á næturnar og hefur tök á því að breyta svefnvenjum þínum, jafnvel bara örlítið, þá gæti það bætt heilsu þína.

Svefninn nauðsynlegur heilanum

Svefninn skiptist í tvö meginstig, djúpsvefn og draumsvefn. Í djúpsvefni, sem varir yfirleitt framan af nóttu, vinnur heilinn að því að flytja minningar úr skammtímaminninu í langtímaminnið. Fáirðu ekki nægan djúpsvefn glatast þessar minningar.

Í þessu samhengi má t.d. benda á mikilvægi góðs nætursvefns í próflestri, því náirðu ekki djúpsvefni minnka líkurnar á því að námsefnið festist í minninu. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem ekki ná djúpsvefni ná allt að 40% verri árangri en aðrir á prófi.

Djúpsvefninn varir aðeins í nokkrar klukkustundir en þá tekur draumsvefninn við (REM svefn). Oft skiptast þessi tvö stig svefns á yfir nóttina. Í draumsvefni eru allir vöðvar líkamans lamaðir, nema augnvöðvarnir. Í draumsvefni slokknar á framleiðslu streituhormónsins noradrenalíns, svo líkaminn nær dýpri slökun en ella.

Á meðan þetta ástand varir gerir heilinn upp ýmsa atburði dagsins og hafi eitthvað sérstaklega tilfinningaríkt eða erfitt átt sér stað getur draumsvefninn því verið lykilþáttur í því að ná tökum á tilfinningunum og sætta sig við orðinn hlut.

Draumsvefn er yfirleitt ríkjandi seinni hluta nætur. Þetta þýðir að ef þú ert vakinn í skyndi án þess að hafa náð fullum svefni gæti verið að heilinn sé enn ekki búinn að gera upp allar tilfinningar dagsins. Þetta getur leitt til aukins kvíða og streitu.

Sjá nánar í tímariti BBC.

Allir vita að svefn er nauðsynlegur börnum til að vaxa …
Allir vita að svefn er nauðsynlegur börnum til að vaxa og dafna, en fullorðnir þurfa líka á svefni að halda. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert