Breski vísindamaðurinn Peter Higgs stefnir að því að fara á eftirlaun á næsta ári en þá verður hann 85 ára.
Higgs og belgíski vísindamaðurinn Francois Englert fá Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í ár fyrir vinnu sína við smíði kenningar um Higgs-bóseindina, sem sumir vilja reyndar kalla guðseindina. Higgs gat sér til um tilvist hennar árið 1964.
Á sjöunda áratug síðustu aldar voru þeir Higgs og Englert á meðal nokkurra eðlisfræðinga sem lögðu fram staðallíkan til að útskýra hvers vegna efnisheimurinn hefði massa.
Eftir 45 ára leit fannst Higgs-bóseindin loks árið 2012, en það voru vísindamenn við evrópsku rannsóknastöðina í öreindafræði, CERN, í Genf í Sviss sem tilkynntu fundinn sem þykir stórmerkilegur. Tilvist Higgs-bóseindarinnar færði sönnur á að ósýnilegt svið, svokallað Higgs-svið, léki um allan alheiminn sem gæfi efni massa.
Higgs hætti að kenna í fullu starfi fyrir sautján árum en deilir enn þekkingu sinni meðal annarra vísindamanna. Hann var í viðtali við BBC í Skotlandi í gærkvöldi en líkt og fram hefur komið var það eldri kona sem sagði honum frá því að hann hefði hlotið Nóbelsverðlaunin um daginn. Hitti Higgs hana úti á götu í Edinborg og óskaði hún honum til hamingju. Í fyrstu vissi hann ekki um hvað hún var að tala þar sem ekki hafði náðst í hann til að tilkynna honum að hann hlyti verðlaunin. Enda er Higgs ekki með farsíma.
Í viðtalinu við BBC kom fram að Higgs hafnaði aðalstign sem breska ríkissstjórnin bauð honum árið 1999 enda fannst honum það bara alls ekki tímabært. Þar fyrir utan hafi hann bara ekki langað í aðalstign.