Snjómaðurinn ógurlegi var björn

Er Snjómaðurinn ógurlegi, bangsinn dularfulli, enn í Himalya-fjöllum?
Er Snjómaðurinn ógurlegi, bangsinn dularfulli, enn í Himalya-fjöllum? AFP

Breskir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Snjómaðurinn ógurlegi hafi í raun verið undirtegund grábjörns. Goðsögnin um að þetta kvikindi sé á kreiki í Himalayafjöllum og víðar er þekkt um allan heim.

DNA-rannsóknir á hárum sem gerðar voru við Oxford-háskóla leiddu í ljós að þau voru sambærileg hárum fornra ísbjarna. Erfðafræðiprófessorinn Bryan Sykes segir að líklegast sé að Snjómaðurinn ógurlegi hafi verið kynblendingur ísbjarnar og grábjörns. Hann segir ennfremur í samtali við BBC að hugsanlega hafi því raunverulegt dýr ýtt undir goðsögnina um Snjómanninn.

„Ég held að björninn, sem enginn hefur séð á lífi, gæti enn verið þarna og sé skyldur ísbirni,“ segir hann.

Hárin sem rannsóknirnar voru gerðar á fundust á tveimur stöðum, í Bútan og á Norður-Indlandi, í nágrenni Himalayafjallanna. 

Enn telja sumir að Snjómaðurinn ógurlegi sé raunverulegur og reglulega eru birtar ljósmyndir af fótsporum sem talin eru eftir þessa goðsagnakenndu veru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert