Magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti jarðar hefur aldrei mælst meira en á síðasta ári. Þetta hefur m.a. mikil áhrif á hlýnun jarðar, segir í skýrslu veðurstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag. Magn þriggja gastegunda, koltvíoxíðs (CO2) metans og nituroxíð hefur aldrei mælst meira en í fyrra.
Magn koltvíoxíðs mældist 141% meira en fyrir iðnbyltingu eða árið 1750.
Dave Reay, sérfræðingur við Edinborgarháskóla, segir að koma verði böndum á magn gróðurhúsalofttegunda ef takast eigi að halda hlýnun jarðar í skefjum.
„Þrátt fyrir að dregið hafi úr losun hjá sumum þjóðum í kjölfar efnahagshrunsins er heildarmyndin sú að magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu okkar er í hæstu hæðum ár eftir ár,“ segir hann.
Sérfræðingar segja að verði haldið uppteknum hætti megi eiga von á veðurfarsbreytingum, m.a. meiri vindum en áður hefur þekkst, útrýmingu dýrategunda, vatnsskorti og uppskerubresti.