Bjuggu til öskuský

Öskuskýinu sleppt.
Öskuskýinu sleppt.

Flugfélagið easyJet, flugvélaframleiðandinn Airbus og rannsóknarfyrirtækið Nicarnica Aviation bjuggu til öskuský sambærilegt því sem kom frá Eyjafjallajökli vorið 2010 og lamaði flugsamgöngur í Evrópu.

Tilgangurinn með tilrauninni var að prófa svokallaðan  AVOID skynjara sem ætlað er að auðvelda flugvélum að nema og áætla styrk eldfjallaösku í andrúmsloftinu, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Tilraunin fólst í því að vísindamenn bjuggu til öskuský yfir Biscay-flóa með því að sleppa einu tonni af íslenskri eldfjallaösku úr Eyjafjallajökli í 9.000-11.000 feta hæð úr flutningavél. Sköpuðust þar svipaðar aðstæður og árið 2010 þegar eldgosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst. Tilraunin þótti heppnaðist vel og fyrst um sinn var auðvelt að koma auga á skýið með berum augum en askan dreifðist fljótt og erfitt varð að greina hana. Öskuskýið var á bilinu 600-800 fet á hæð og 2,8 km í þvermál.

Í kjölfarið flaug lítil flugvél í gegnum öskuskýið og mældi styrk öskunnar í andrúmsloftinu. Því næst flaug Airbus A340-300 farþegaþota, búin AVOID skynjaranum, í átt að öskuskýinu og tókst skynjaranum að greina ösku í loftinu úr 60 km fjarlægð auk þess að mæla nákvæmlega styrk hennar.

easyJet ætlar að halda áfram að þróa skynjarana og stefnir að því að flugvélar félagsins verði útbúnar þeim fyrir lok árs 2014.  Með notkun AVOID skynjaranna má koma í veg fyrir að leggja þurfi niður flug vegna eldfjallaösku í háloftunum líkt og þurfti að gera í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert