Fá 1,7 milljónir evra í styrk

Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, taka þátt í evrópsku rannsóknarverkefni varðandi nýjar aðferðir til að rannsaka og meta jarðhitakerfi. Styrkupphæð til Íslands nemur 1,7 milljónum evra, sem svarar til 280 milljónum króna.

Rannsóknarverkefnið nefnist IMAGE (Integrated Methods for Advanced Geothermal Exploration) og er til næstu fjögurra ára.

„Markmið verkefnisins er að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka og meta jarðhitakerfi og staðsetja borholur með markvissari hætti. Vonast er til að hægt verði að gefa sem besta mynd af jarðhitakerfum áður en boraðar eru rannsóknarholur. Það gæti þýtt að hægt yrði að draga úr kostnaði við boranir í jarðhitaverkefnum. Einnig að staðsetning borholna verði árangursríkari, sem dregur úr umhverfisáhrifum.

Nýjar rannsóknaraðferðir verða prófaðar í vel þekktum jarðhitakerfum, bæði í setlagakerfum meginlands Evrópu og í háhitakerfum tengdum eldvirkni þar sem vænta má vökva í yfirmarksástandi eins og hér á Íslandi, segir í tilkynningu.

Verkefnið skiptist í þrjá verkþætti:

1)      Rannsóknir sem miða að því að skilja eðli og eiginleika jarðhitakerfa. Áhersla verður lögð á að geta sagt fyrir um hitadreifingu, sprungulekt og eiginleika bergs í kerfunum út frá yfirborðsmælingum. Einnig verður reynt að nýta þá þekkingu sem fæst við samanburð á gömlum, útkulnuðum jarðhitakerfum, sem nú eru sýnileg á yfirborði vegna rofs og upplyftingar, og þeim jarðhitakerfum sem eru virk í dag. Safnað verður saman upplýsingum um eiginleika bergs sem nýtist í seinni tveimur verkþáttunum.

2)      Þróa núverandi tækni við yfirborðskönnun til að gefa betri mynd af eiginleikum jarðhitakerfa. Í þessu felst m.a. þróun aðferða á sviði jarðfræði, jarðeðlisfræði og jarðefnafræði. Sem dæmi um mæliaðferðir og tæki má nefna:

a)      Jarðeðlisfræðilegar mælingar þar sem jarðskjálftabylgjur og eðlisviðnám jarðar er notað til að greina sprungur, jarðlagagerð og eiginleika jarðhitakerfa.

b)      Notkun ljósleiðarakapla í borholum til að fá upplýsingar um jarðlagagerð, hitastig og eðlisfræðilega eiginleika bergs. Hér er meðal annars um að ræða prófun á nýrri og byltingarkenndri tækni til að nota ljósleiðara í stað jarðskjálftamæla til jarðlagarannsókna.

c)       Þróun nýrra ferliefna (kenniefna) og efnahitamæla til að kanna rennslisleiðir og greina hitastig djúpt í jarðhitakerfum.

3)      Flétta saman þekkingu og niðurstöður sem fást í fyrri verkþáttum í heildstæða mynd af jarðhitakerfum. Áhersla verður lögð á hversu mikilvægt er að samþætta niðurstöður sem fást með mismunandi yfirborðsmælingum til að myndin sé sem best og geti hjálpað til að kanna jarðhitakerfið áður en til rannsóknarborunar kemur. Gerð verða hugmyndalíkön af þekktum jarðhitakerfum, líkön betrumbætt og aðferðir við yfirborðskönnun þróaðar.

Þátttakendur í IMAGE-verkefninu eru ellefu rannsóknarstofnanir á sviði jarðhita í Evrópu auk átta fyrirtækja sem koma að rekstri jarðvarmavera eða annarrar nýtingar jarðhitakerfa. Þessir 19 þátttökuaðilar eru frá Íslandi, Hollandi, Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Sviss, Noregi, Tékklandi og Spáni. Auk ÍSOR eru tvö íslensk fyrirtæki meðal þátttakenda, HS Orka og Landsvirkjun. Alls veitir Evrópusambandið rúmar 10 milljónir evra til verkefnisins. Af því fara um 1,7 milljónir evra til íslenskra aðila auk þess sem drjúgur hluti af framlögum til erlendra þátttakenda fer til rannsókna á jarðhitakerfum á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert