Íslenskur vísindamaður hefur komist að þeirri niðurstöðu ásamt norskum starfsbræðrum sínum að ekkert sé hæft í því að erfðafræðilegar ástæður útskýri hvers vegna sumir eru góðir í stærðfræði. Þeir segja einfaldlega að æfingin skapi meistarann.
Vísindamenn við Tækniháskólann í Þrándheimi í Noregi segja að vilji maður ná árangri og bæta stærðfræðikunnáttu sína, þá verður viðkomandi að leggja hart að sér. Menn geti ekki treyst á að þeir búi einfaldlega yfir einhverskonar náttúrulegum stærðfræðihæfileikum.
Meðal þeirra vísindamanna sem unnu að gerð rannsóknarinnar er Hermundur Sigmundsson, sem er prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við háskólann.
Niðurstaða vísindamannanna er þvert á þá almennu hugmynd sá sem er góður í stærðfræði hljóti að hafa fengið þá náðargáfu í vöggugjöf. Þetta kemur fram á vef United Press International.
Bent er á að sú niðurstaða að stærðfræði snúist um kunnáttu sem menn þrói með sér en sé ekki meðfæddur hæfileiki gæti haft áhrif á það hvernig kenna eigi stærðfræði.
Vísindamennirnir könnuðu stærðfræðikunnáttu 70 barna í Noregi sem voru öll í fimmta bekk í grunnskóla.
„Þú verður góður nákvæmlega í því sem þú æfir,“ segir Hermundur í samtali við UPI, og hann bætir við að þetta sé tilgáta sem vísindamennirnir hafi lagt fram og séu studd rökum.
Hann segir ennfremur, að niðurstaðan styðji við nýjar hugmyndir í taugafræði. „Ákveðnar taugafræðilegar tengingar myndast með æfingu,“ segir hann.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Psychological Reports.