Stjórn Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright hefur ákveðið heiðursverðlaun fyrir árið 2013. Eru verðlaunin í ár veitt Helga Björnssyni jöklafræðingi.
Þegar sú ákvörðun var tekin var einn stjórnarmanna fjarstaddur. Það var prófessor Sveinbjörn Björnsson fyrrverandi háskólarektor, en hann er bróðir Helga og er þetta í fyrsta sinn sem bræður hafa hlotið viðurkenningu Ásusjóðs, segir í tilkynningu.
„Mikið hefur verið rætt og ritað um hnattræna hlýnun, rýrnun jökla og áhrif mannlegra athafna á veðurfar á undanförnum árum. Helgi Björnsson hefur rannsakað búskap jökla í áratugi. Hann hefur safnað upplýsingum úr rituðum heimildum fyrri alda. Einnig hefur hann greint söguna sem skráð er í ísalög og jarðmyndanir sem jöklar skilja eftir sig.
Helgi hefur aflað grunngagna um alla helstu jökla Íslands, en þeir þekja um 10% landsins. Hann hefur kennt jöklafræði og grunnvatns-fræði. Jarðhitasvæði í jöklum og vatnssöfnun í jökullón hefur hann rannsakað. Fylgst með skriði jökla og hreyfingum þeirra og hvernig þeir breytast með loftslagsbreytingum. Ritverk hans spanna allan þennan skala og hefur hann bæði birt fræðigreinar og rit til upplýsinga fyrir almenning,“ segir í tilkynningu.
Helgi Björnsson er fæddur hinn 6. desember 1942 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Droplaug Sveinbjarnardóttir og dr. Björn Sigfússon háskólabókavörður. Hann er giftur Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor. Helgi er fimm barna faðir.
Helgi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963. Stundaði hann háskólanám við Óslóarháskóla og lauk þaðan fyrst cand. Mag. Prófi, síðan cand.scient prófi 1969 og að lokum dr. Philos árið 1988.
Að námi loknu starfaði Helgi við Orkustofnun Noregs, var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans 1971-1973 og sem fræðimaður þar 1982-1990 og forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu stofnunarinnar 1991-1995 þá sat hann í stjórn Jarðvísindastofnunar Háskólans 2010-2012, einnig sá hann um kennslu í jökla og grunnvatnsfræði við Háskóla Íslands. Var hann gistisérfræðingur við Bristol-háskóla 1973-1975, Stockholms-háskóla 1980, Óslóarháskóla 1986-7, við Instutute of Arctic and Alpine Reseracah, Boulder Colorado árið 1996 og British Antarctic Survey og Scott Polar Research Institute í Cambridge 1997 og University of British Columbia í Vancouver 2005. Hann hefur verið prófessor í hlutastarfi við Óslóarháskóla frá 1994 til 2004.
Hann hefur tekið þátt í rannsóknum á Himalajasvæðinu frá árinu 2008 og tekið að sér kennslu við Indian Institute of Sciences í Bangalore á Indlandi. Helgi hefur birt yfir 130 ritrýndar greinar í vísindaritum. Aðar 120 greinar fræðilegs eðlis og skýrslur. Auk þess hefur hann birt 4 sér kort af hlutum Vatnajökuls og af Hofsjökli. Helgi hefur flutt yfir 300 fræðilega fyrirlestra og birt veggspjöld á þingum og ráðstefnum. Helgi hefur ritað þrjá bókarkafla í ritstýrðar fræðibækur.
Þetta er í fertugasta og fimmta sinn sem úthlutað er úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright. Meðal þeirra sem hafa fengið verðlaunin eru Sigurður Nordal, Sigurður Þórarinsson, Margrét Guðnadóttir og Sigurbjörn Einarsson biskup. Á síðasta ári hlaut Gylfi Zoëga hagfræðingur verðlaunin. Þeir sem hljóta verðlaunin hljóta nafnbótina æsir og ásynjur.
„Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright, Ásusjóður var stofnaður á hálfrar aldar afmæli Vísindafélags Íslendinga árið 1968. Sjóðinn stofnaði Ása til minningar um eiginmann sinn, foreldra og systkini. Ása Guðmundsdóttir Wright fæddist á Íslandi árið 1892. Kynntist hún enskum manni, lögmanninum dr. Henry Newcomb Wright sem hún gekk að eiga. Ása og eiginmaður hennar, settust að á Trinidad í Vestur-Indíum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, en eyjan var þá bresk nýlenda. Þar áttu þau og ráku plantekru sem síðar var friðlýst vegna stórbrotinnar náttúru og sérstæðs fuglalífs og heitir nú Asa Wright Nature Centre. Þegar Ása seldi búgarðinn sá hún um að andvirði eignarinnar yrði meðal annars varið til stofnunar þessa verðlaunasjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem undanfarin 45 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi, sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland.
Eru nú í stjórn sjóðsins þeir; prófessor Sveinbjörn Björnsson; prófessor Þráinn Eggertsson og Sigrún Ása Sturludóttir, M.Sc., sem er stjórnarformaður. Hollvinir sjóðsins eru fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og HB Grandi. Þeir gera sjóðnum kleift að veita árlega ein veglegustu verðlaun sem veitt eru til vísindamanna hér á landi.
Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn og fylgir í ár þriggja milljóna króna peningagjöf frá hollvinum.