Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og vísindamaður við Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun, er meðhöfundur að athugasemd (e. Comment) sem birt er í vísindatímaritinu Nature í dag. Þar er hvatt til þess að aðrir mælikvarðar en verg landsframleiðsla verði nýttir til að meta hagsæld þjóða.
Kristín Vala og aðrir í stýrihópi Samtaka um sjálfbærni og velmegun (Alliance for Sustainability and Prosperity – ASAP) unnu með ríkisstjórn Bútan í Asíu við að þróa nýja framtíðarsýn fyrir heiminn sem byggist ekki á vergri landsframleiðslu heldur vellíðan og hamingju þjóðfélagsþegna. Verg landsframleiðsla (VLF - gross domestic product – GDP) byggist á því að mæla flæði fjár innan þjóðfélaga og fær skakka mynd þegar til dæmis slys eða náttúruhamfarir verða, en þá hækkar hún. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
„Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi ferli að vera með í þessari stefnumótun og ég mun aldrei gleyma heimsókn minni til Bútan sl. vetur,“ segir Kristín Vala um þátttöku sína í þessu verkefni.
Fram kemur, að verg landsframleiðsla hafi verið nýtt í árabil til að mæla árangur þjóða. Höfundar athugasemdarinnar í Nature benda á að sú stefna hafi leitt til mikillar eyðileggingar í náttúrunni, eyðingu auðlinda og aukinnar misskiptingar auðs innan þjóða og á milli þjóða. Í athugasemdinni í Nature mælir ASAP-hópurinn með því að nýttir séu aðrir stuðlar sem beinast að velferð, vellíðan, velmegun og hamingju þjóðfélagsþegna.
Þá segir, að Bútan hafi haft forystu á heimsvísu um að reikna reglulega út hamingjustuðla fyrir sína þjóðfélagsþegna (GHP – Gross National Happiness – verg hamingja). Þá vinni Sameinuðu þjóðirnar að nýrri þróunarstefnu undir merkjum sjálfbærrar þróunar (Sustainable Development Goals) eftir að tímabili þúsundaldarmarkmiðanna (Millennium Development Goals) lýkur 2015. Bútanstjórn hefur komið að því ferli ásamt fjölda vísindamanna alls staðar að úr heiminum, þar á meðal stýrihópi ASAP.
Þar sem stefna Bútanstjórnar hefur breyst nokkuð eftir kosningar sl. sumar hefur ASAP-hópurinn haldið áfram sinni rannsóknavinnu og meðal afraksturs samstarfsins eru vísindagreinar og áðurnefnd athugasemd í Nature, auk þess sem unnið er að bók tengdri rannsóknum hópsins, að því er fram kemur í tilkynningu. Þar að auki hafi ASAP-hópurinn leitast við að leiða saman hugmyndir hundraða ef ekki þúsunda hópa sem vilji hafa áhrif á hina nýju stefnu Sameinuðu þjóðanna. Allar niðurstöður félaga í ASAP séu einnig sendar til Sameinuðu þjóðanna sem framlag til stefnunnar 2015-2030 um sjálfbæra þróun.
Fyrir stýrihópi ASAP fer Robert Costanza, prófessor í visthagfræði við Þjóðarháskólann í Camberra í Ástralíu (Australian National University), en auk hans og Kristínar Völu eru í hópnum vísindamenn og sjálfbærnisérfræðingar frá Ítalíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Suður-Afríku.