Tæknirisinn Google kynnti í dag „snjalllinsu“ sem er þeim eiginleikum gædd að í henni er búnaður sem mælir glúkósamagn þess sem er með linsuna í auga sér og er hún einkum ætluð sykursjúkum.
Í hverri linsu er örlítil örflaga og skynjari sem er þynnra en mannshár. Skynjarinn les magn glúkósa í tárum á sekúndu fresti, að því er fram kemur á bloggsíðu Google.
Bandaríska lyfjaeftirlitið er nú með linsuna til rannsókna og prófana, en nokkur tími gæti liðið þar til linsur sem þessar koma á almennan markað.