Geislun frá síma ekki hættuleg

Í yfirlýsingunni segir að of snemmt sé að draga afdráttarlausar …
Í yfirlýsingunni segir að of snemmt sé að draga afdráttarlausar ályktanir um hættu á heilaæxlum hjá börnum og unglingum en séu fyrirliggjandi vísindagreinar og rit tekin saman þá sýni þau ekki aukna hættu. mbl.is/Brynjar Gauti

Samanteknar niðurstöður rannsókna sem birst hafa í vísindaritum til þessa benda ekki til þess að rafsegulgeislun við þráðlaus samskipti hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks. Styrkur geislunar er fyrir neðan þau viðmiðunarmörk sem tekin hafa verið upp á Norðurlöndum.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu geislavarnastofnananna (STUK, SSM, NRPA, SIS, IRSA). Geislavarnir ríkisins taka þátt í samstarfi stofnanna.

Síðan 2011 hafa verið birtar niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna á notkun farsíma og hættu á heilaæxlum og öðrum æxlum í höfði. Í yfirlýsingunni segir að í heildina sýni þær ekki að farsímanotkun auki áhættu á æxlum hjá notendum. Enn sé ekki til mikið af gögnum um notkun farsíma í lengri tíma en 13-15 ár og því of snemmt að draga afdráttarlausar ályktanir um hættu á heilaæxlum hjá börnum og unglingum en séu fyrirliggjandi vísindagreinar og rit tekin saman þá sýni þau ekki aukna hættu.

Nýjar faraldsfræðilegar rannsóknir hafa einnig beinst að öðrum áhrifum á heilsu en myndun krabbameina. Einhver slík áhrif hafa komið fram en takmarkanir á aðferðarfræði rannsóknanna koma í veg fyrir að hægt sé að draga afdráttarlausar ályktanir um orsakatengsl. Rannsóknir um tiltekin áhrif eru einnig fáar og því ekki hægt að staðfesta niðurstöðurnar.

„Hnattræn þráðlaus samskipti byggja á víðfeðmu neti senda og móttakara sem nota geislun á fjarskiptatíðnum. Þráðlaus staðarnet (WLAN, Wi-Fi) nota hana einnig. Nýlegar kannanir hafa sýnt að þrátt fyrir mikla aukningu á notkun þráðlausra samskipta hefur slík geislun á svæðum ætluðum almenningi utandyra, sem og innanhúss í skólum, skrifstofum og hýbýlum fólks haldist langt fyrir neðan viðmiðunarmörk,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka