Sólarljós gott fyrir blóðþrýstinginn

AFP

Sólarljós getur hjálpað til við að draga úr háum blóðþrýstingi sem eykur hættuna á hjartaáföllum og heilablóðföllum. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar.

Breskir vísindamenn komust að því að sólarljós getur breytt magni nituroxíðs í húðinni, víkkað æðar og þar með dregið úr háþrýstingi.

„Lítið magn af NO (nituroxíði) fer frá húðinni og inn í blóðrásina og lækkar þrýstinginn,“ segir Martin Feelisch, prófessor við háskólann í Southampton. „Þegar blóðþrýstingur lækkar, lækkar einnig hættan á hjartaáfalli og heilablóðfalli.“

Vísindamennirnir fengu 24 sjálfboðaliða til liðs við sig en sjálfboðaliðarnir voru látnir fara í ljósalampa, tvisvar sinnum í tuttugu mínútur. Í fyrra skiptið urðu þeir bæði fyrir útfjólubláum geislum og hita frá lömpunum en í síðara skiptið aðeins fyrir hitanum.

„Þessar niðurstöður eru mikilvægar í umræðunni um hollustu sólarljóss og hlutverki D vítamíns í því sambandi,“ segir Feelisch.

„Það er nauðsynlegt að forðast of mikið sólarljós til að koma í veg fyrir húðkrabbamein, en að forðast það með öllu, vegna ótta eða ákveðins lífsstíls, gæti aukið hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.“

 Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í Journal of Investigative Dermatology.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert