Helsta skýringin á því hvers vegna svo margir Rússar deyja fyrir aldur fram er óhófleg áfengisneysla, einkum vodkadrykkja. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem fjallað er um í Lancet í dag.
Þar kemur fram að fjórðungur rússneskra karla deyr fyrir 55 ára aldur og í flestum tilvikum er andlát þeirra rakið til áfengisneyslu. Í Bretlandi er hlutfallið 7%, segir í frétt BBC.
Meðal dánarorsaka sem raktar eru til ofneyslu áfengis eru lifrarsjúkdómar og áfengiseitranir. Eins deyja margir í slysum eða eftir að hafa lent í átökum.
Rannsóknin er sú viðamesta sem unnin hefur verið í Rússlandi af þessu tagi. Þeir sem unnu hana eru frá krabbameinsrannsóknarsetri Rússlands í Moskvu, Oxford-háskóla í Bretlandi og krabbameinssviði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Frakklandi. Var fylgst með drykkjuvenjum 151 þúsund fullorðinna einstaklinga í þremur rússneskum borgum í tíu ár.
Á því tímabili létust átta þúsund þeirra sem fylgst var með. Eins var byggt á fyrri rannsóknum á andláti 49 þúsund einstaklinga.
Það hefur lengi verið rætt um mikla áfengisneyslu meðal rússneskra karla og árið 1985 lét Mikaíl Gorbatsjov, sem þá var leiðtogi Sovétríkjanna, draga verulega úr vodkaframleiðslu í landinu og lagði sölubann á vodka fyrir hádegi.