Viljum gera vel, frekar en hratt

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP

Unnið er að undirbúningi sjónvarpsþáttaraðar sem byggð er á fjölspilunarleik CCP, EVE-Online undir leikstjórn Baltasar Kormáks. Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP segir ekkert liggja á og segist vilja vanda til verks, en tilkynnt var um fyrirhugaða þáttagerð fyrir um ári síðan.

„Við viljum frekar gera þetta vel heldur en að gera þetta hratt,“ segir Hilmar Veigar í viðtali við vefsíðuna Variety. Hann er nú staddur á leikjaráðstefnunni Dice í Las Vegas í Bandaríkjunum þar sem hann fundar með hugsanlegum framleiðendum þáttanna og öðrum sem gætu komið að framleiðslu þeirra.

Söguþráður þáttanna mun byggjast á þeim atburðum sem gerst hafa í leiknum og þeir sem spila leikinn munu koma með hugmyndir að söguþræði.

Mörg hundruð þúsund manns eiga hlut að máli

Hilmar Veigar segir að nú sé verið að safna slíkum hugmyndum saman. „Þetta hefur í rauninni verið skapað af mörg hundruð þúsund manns víða um heim,“ segir hann. „Þannig má eiginlega segja að þetta sé ein stærsta saga sem skrifuð hefur verið og þetta ferli skapar enn meiri tengsl á milli okkar og þeirra sem spila EVE.“

Hann segir að áhersla verði lögð á einstakar persónur, samskipti þeirra og baráttu. „Leikurinn [EVE-Online] snýst um geimspkip. Við getum ekki látið geimskip tala saman. Við þurfum að sjá fyrir okkur það sem er á bak við tjöldin. Kvikmyndin Titanic fjallar ekki um skipið, heldur um tvær manneskjur sem verða ástfangnar.“

Gott að vera íslenskt fyrirtæki

Þættirnir verða hvorki framleiddir af CCP né verður þeim dreift á vegum fyrirtækisins. „Við vitum ekkert um hvernig búa á til góða sjónvarpsþætti,“ segir Hilmar Veigar. „Við horfum á sjónvarp og höfum skoðanir á því, en það er ekki sami hluturinn. Við viljum ekki þykjast vita eitthvað sem við ekki gerum.“

Hann segir það kost fyrir CCP að vera íslenskt fyrirtæki með íslenskar rætur. „Vegna þess að við erum íslensk hafa sagnir alltaf verið mikilvægar fyrir okkur. Ef við hugsum þetta eins og klisju,  þá vilja allir Íslendingar skrifa bækur á sama hátt og allir Parísarbúar vilja eiga veitingastað og allir Bandaríkjamenn vilja vera frægir.“

Unnið er að undirbúningi sjónvarpsþáttaraðar sem byggð er á fjölspilunarleik …
Unnið er að undirbúningi sjónvarpsþáttaraðar sem byggð er á fjölspilunarleik CCP, EVE-Online undir leikstjórn Baltasar Kormáks. Mynd/CCP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert