Flestir sem fara inn á þekkt búsvæði krókódíla horfa til jarðar og í vatnið til að varast skepnurnar. Vísindamenn segja að nú þurfi þeir að fara að horfa upp - í tré.
Þó að krókódílar séu ekki beinlínis vaxnir til þess að klifra í trjám, þá geta þeir gert það og jafnvel náð alveg upp í krónur þeirra, að sögn vísindamanna við Háskólann í Tennessee.
Rannsóknin náði til Ástralíu, Afríku og Norður-Ameríku. Hún leiddi í ljós að krókódílar geta klifrað í allt að tveggja metra hæð. Hins vegar fengu vísindamennirnir einnig að heyra sögur um krókódíla sem hafa klifrað 9 metra upp í tré, að því er fram kemur í frétt Reuters um málið.
Helst eru það ungir krókódílar sem leggja í trjáklifur. „Þeir fara sér hægt en á endanum komast þeir upp,“ hefur Reuters eftir einum vísindamannanna.
Vísindamennirnir telja að krókódílar klifri upp í tré til að fá betri yfirsýn yfir búsvæði sitt. Þá er einnig talið að þeir geri það til að láta sólina skína á sig.