„Helstu niðurstöður ritgerðarinnar benda til þess að Facebook hafi ekki slæm áhrif á félagslega virkni unglinga heldur þvert á móti,“ segir Alexandra Eir Andrésdóttir um niðurstöðu BA-ritgerðar sinnar í uppeldis- og menntunarfræði. Hún nefnist: Unglingar og Facebook, samskipti unglinga og félagsleg virkni.
Rannsóknarspurningin var eftirfarandi: Hvernig hafa samskiptamiðlar eins og Facebook áhrif á félagslega virkni unglinga á efsta stigi í grunnskóla?
Tekin voru viðtöl við sex unglinga, Facebook-notkun þeirra greind og þau beðin um að greina kosti og galla samskiptamiðilsins.
„Allir unglingarnir töldu að vinafjöldinn hefði aukist og að auðveldara væri að eignast vini og að þeir hittu þá oftar,“ segir Alexandra. Þá nota unglingarnir Facebook mikið til að koma sér saman um hvort og hvenær þeir ætla að hittast.
Þegar horft er til íþrótta og tómstundaiðkunar, þá var ekki hægt að greina að virkni þeirra á Facebook kæmi niður á mætingu þeirra. Alexandra benti á að þvert á móti þá stuðlaði notkunin að virkari samskiptum, t.d. væri auðveldara að stofna lokaða hópa. Dæmi voru um að þeir sem stunduðu tiltekna íþrótt skiptust á skoðunum og spjölluðu mikið saman í lokuðum hópum.
Alexandra sagði að á heildina litið notuðu unglingarnir Facebook á jákvæðan hátt. Spurð hvort einhverjir þeirra hefðu orðið fyrir einelti í gegnum vefinn, sagði hún að slíkt hefði ekki komið upp hjá þessum hópi. En það hefði verið nefnt sem einn af ókostunum við Facebook; að auðveldara væri að leggja í einelti en einnig að biðjast afsökunar á framkomu sinni.
Þá bentu unglingarnir á að þeim þætti einnig ókostur að þau upplifðu sterk skilaboð frá samfélaginu um mikilvægi þess að vera með Facebook.