Mark Zuckerberg, stofnandi samskiptavefsins Facebook, hringdi í Barack Obama Bandaríkjaforseta og kvartaði undan því að bandarísk stjórnvöld græfu undan trausti fólks á netinu með því að fylgjast með nethegðun fólks.
Í færslu á facebooksíðu sinni skrifar Zuckerberg: „Ég hringdi í Obama forseta til að lýsa yfir vonbrigðum mínum vegna þess skaða sem ríkisstjórnin er að vinna á framtíð okkar. Því miður lítur út fyrir að það muni taka langan tíma að koma málunum í lag.“
Ummæli Zuckerbergs þykja vera til marks um þá sívaxandi spennu sem er á milli tækniiðnaðarins og yfirvalda í Bandaríkjunum vegna leka á gögnum sem sýna m.a. fram á víðtækt eftirlit leyniþjónustu Bandaríkjanna með almennum borgurum.
„Netið virkar svo vel vegna þess að flest fólk og fyrirtæki hegðar sér á svipaðan hátt þar. Við vinnum saman að því að skapa þetta örugga umhverfi og gerum þetta sameiginlega svæði betra,“ skrifar Zuckerberg.
„Bandarísk yfirvöld ættu að vinna fyrir netið, ekki á móti því.“