Náttúruhamfarir af mannavöldum

Ofurfellibylurinn Haiyan lagði borgina Tacloban á Filippseyjum að miklu leyti …
Ofurfellibylurinn Haiyan lagði borgina Tacloban á Filippseyjum að miklu leyti í rúst. AFP

Fellibylurinn mannskæði á Filippseyjum og þurrkarnir í Ástralíu eru meðal nýlegra náttúruhamfara sem rekja má til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna (WMO), sem kom út í dag.

„Mörg öfgafyllstu veðurfyrirbrigði ársins 2013 voru í samræmi við það sem við mátti búast af afleiðingum manngerðra loftslagsbreytinga,“ sagði Michel Jarraud, aðalritari WMO, þegar hann kynnti skýrsluna í Genf.

„Við urðum vitni að aukinni ofankomu, ákafari hita og meiri skaða af völdum storma og flóða vegna hærra yfirborðs sjávar - eins og fyllibylurinn Haiyan varð svo átakanlegt dæmi um á Filippseyjum,“ sagði Jarraud.

Frosthörkur afsanna ekki hlýnun

Staðan er þó flóknari en svo að hægt sé að kenna loftslagsbreytingum einum um einstaka veðurfyrirbrigði, að sögn Jarrauds, en hinsvegar séu greinilegar tilhneigingar í átt að meiri öfgum í veðurfari.

Sem dæmi nefndi hann niðurstöður rannsókna frá Ástralíu sem benda til þess að hitamet sem þar voru slegin í fyrra hefðu ekki getað fallið án losunar gróðurhúsalofttegunda.

WMO nefnir einnig sem dæmi óvenjuleg kuldaköst í Evrópu og Bandaríkjunum, flóð í Indlandi, Nepal, norðurhluta Kína, Rússlandi, Mið-Evrópu, Súdan og Sómalíu, snjókomu í Mið-Austurlöndum og þurrka í Kína, Brasilíu, suðurhluta Afríku og vesturhluta Bandaríkjanna.

Miklir kuldar, líkt og í Bandaríkjunum í vetur, stangast engan veginn á við kenningar um hlýnun jarðar, að sögn Jarrauds, vegna þess að loftslagsbreytingar feli í sér brenglun á veðurfari.

„Fólk segir að hlýnun jarðar sé hætt, en árið sem var metkalt núna var í raun hlýrra en nokkurt annað ár fram til 1998,“ sagði Jarraud.

Ekki hægt að semja um eðlisfræðilögmál

Náttúruleg fyrirbrigði eins og eldgos, El Nino og La Nina hafa alltaf haft áhrif á hitastig og hrint náttúruhamförum af stað, en aðgerðir manna ýta undir þetta. 

„Það er engin kyrrstaða í loftslagsbreytingum,“ sagði Jarraud. „Magn gróðurhúsalofttegunda er í hæstu hæðum, sem þýðir að andrúmsloftið og úthöfin munu halda áfram að hlýna á næstu öldum. Það er ekki hægt að semja um lögmál eðlisfræðinnar.“

Árið 2013 var ásamt 2007 það 6. heitasta frá upphafi mælinga. Meðalyfirborðshiti jarðar og sjávar var 0,5°C hærri en meðaltal áranna 1961-1990 og 0,03°C hærra en meðaltal áranna 2001-2010. Það tímabil var það hlýjasta í sögunni.

Enn kostnaðarsamara að bregðast við síðar

13 af 14 hlýjustu árum sögunnar voru á 21. öld. Undanfarin 30 ár hefur hver áratugur verið hlýrri en sá sem á undan fór.

„Við þá sem eru enn í afneitun gagnvart hlutdeild mannanna í loftslagsbreytingum vil ég segja að því miður, þá er það ekki lengur mögulegt. Meðvitund er að aukast, en það hefur enn ekki skilað sér í ákvarðanatökum,“ sagði Jarraud í dag.

Hann bætti við að því lengra sem beðið væri með aðgerðir, því meira hækkaði meðalhitinn og þar með þyrfti enn umfangsmeiri viðbrögð síðar meir sem yrðu enn kostnaðarsamari en nú.

Michel Jarraud aðalritari Alþjóða veðurfræðistofnunar SÞ kynnti árskýrslu stofnunarinnar í …
Michel Jarraud aðalritari Alþjóða veðurfræðistofnunar SÞ kynnti árskýrslu stofnunarinnar í Genf í dag. AFP
Michigan vatn við Chicago í Illinois botnfraus í gríðarlegum frosthörkum …
Michigan vatn við Chicago í Illinois botnfraus í gríðarlegum frosthörkum fyrr í vetur. AFP
Flóð í Indónesíu.
Flóð í Indónesíu. AFP
Flóð í Filppseyjum.
Flóð í Filppseyjum. AFP
Uppskerubrestur vegna þurrka í Ástralíu.
Uppskerubrestur vegna þurrka í Ástralíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert