Því er haldið fram í nýrri skýrslu að flensulyfið tamiflu geri ekkert til að hindra útbreiðslu flensu og lítið til að draga úr helstu einkennum. Milljónum hafi því verið kastað út um gluggann í gagnslaust lyf.
Á Íslandi er tamiflu tiltölulega lítið notað en Landlæknir telur það mikilvægt lyf við inflúensu, sé það rétt notað.
BBC segir í dag frá þeirri fullyrðingu bresku rannsóknarstofnunarinnar The Chochrane Collaboration að hátt í 500 milljónir punda sem breska ríkisstjórnin hefur varið í að kaupa byrgðir af tamiflu, hafi verið peningaeyðsla þar sem lyfið virki engu betur en venjulegar paracetamol verkjatöflur.
Bretar keyptu miklar byrgðar af Tamiflu árið 2006 þegar því var spáð að fuglaflensufaraldur gæti dregið allt að 750.000 Breta til dauða. Fleiri ríkisstjórnir gerðu slíkt hið sama. Tamiflu er ekki bólusetningarlyf, heldur lyf sem notað hefur verið til að draga úr einkennum og smithættu þeirra sem veikjast.
Þegar svínaflensan gekk árið 2009 var skrifað upp á tamiflu fyrir fjölmarga sem veiktust á Bretlandi, að sögn BBC. Í skýrslunni sem gefin var út í dag er niðurstaðan sú að tamiflu dragi úr flensueinkennum að jafnaði þannig að þau vari í 6,3 daga hjá fullorðnum sjúklingum, í stað 7 daga án lyfsins.
Framleiðendur tamiflu halda því fram að lyfið komi í veg fyrir að flensan þróist yfir í lungnabólgu, en rannsóknarstofnunin segir að engin sjáanlegur árangur hafi greinst í þá átt með prófunum. Þá segja skýrsluhöfundar sömuleiðis að ósannað sé að tamiflu dragi úr smithættu.
Carl Henegen, prófessor í læknisfræði við Oxford háskóla og einn höfunda skýrslunnar, segir í samtal við BBC að kerfið sem er við lýði í lyfjabransanum sé afar gallað þegar að því kemur að sýna fram á virkni lyfja. Þar með sé það opið fyrir misnotkun lyfjafyrirtækja.
Að sögn Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis við Landlæknisembættið er tamiflu tiltölulega lítið notað hér á landi í venjulegum, árstíðabundnum inflúensufaraldri. Síðast liðin 3 ár hafa að jafnaði 300-400 meðferðarskammtar verið skrifaðir út árlega.
Íslenska ríkið hefur ekki staðið fyrir stórfelldri birgðasöfnun á tamiflu, heldur er innflutningur lyfsins alfarið á höndum einkaaðila. Sóttvarnarlæknir heldur þó lyfjabirgðir fyrir hönd hins opinbera, sem eru til notkunar ef heimsfaraldur inflúensu gengur yfir.
Haraldur segir embættið telja tamiflu mikilvægt lyf við inflúensu, sé það rétt notað. Það sé einkum mikilvægt fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma og í alvarlegum inflúensufaraldri, s.s. heimsfaraldri.