Jarðgas hluti af tímabundinni lausn

Jarðgasvinnsla í Kaliforníu í Bandaríkjunum
Jarðgasvinnsla í Kaliforníu í Bandaríkjunum Mynd/AFP

Í skýrslu loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um leiðir til að berjast gegn loftlagsbreytingum, sem kynnt var í gær, kemur fram að notkun jarðgass í stað kola getur verið hluti af lausn vandans

Skýrsluhöfundar segja að losun koltvísýrings aukist hratt í heiminum. Menn verði hins vegar að snúa þeirri þróun við og að það verði að gerast hratt. Þeir segja að vísindin hafi talað sínu máli í þessum efnum. 

Vinnsla jarðgass úr sandsteini (e. fracking) hefur í auknum mæli verið notuð í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Bretar hafa fyrirhugað að fara sömu leið. Ottmar Edenhofer, einn aðalhöfunda skýrslunnar, segir það nokkuð skýrt að vinnsla jarðgass úr sandsteini, undir ákveðnum kringumstæðum, geti reynst árangursrík leið til þess að berjast gegn loftlagsbreytingum, ef notkun jarðgassins kemur í stað brennslu kola.

Í skýrslunni segir: „Hægt er að minnka útblástur koltvísýrings með því að skipta út hinum almennu kolabrennslu-orkuverum fyrir nútímalegri gasorkuver með góða nýtni og útbúnað til þess að takmarka útblástur eða safna honum saman.“ Edenhofer segir að gasorkuverin verði þá að koma í stað kolabrennslu-orkuveranna en ekki til viðbótar. Þá verður einnig aðgengi að jarðgasi að vera gott. 

Mikið hefur verið rætt í Bretlandi um byggingu nýrra gasorkuvera en margir umhverfisverndarsinnar vilja bíða með slíkar framkvæmdir þar til nýrri og betri tækni hefur verið þróuð til þess að takmarka útblástur enn betur. Þá er einnig verið að vinna í tækni sem safnar útblæstri saman svo hægt sé að grafa hann í jörðu (CCS technology) en þróun slíkrar tækni gengur hægt og enn getur verið langt í land með að hún verði raunhæfur möguleiki. 

Verður að draga úr brennslu kolefnaeldsneytis

Niðurstaða skýrslunnar er þó að það verði að draga hratt úr brennslu kolefnaeldsneytis í heiminum til þess að standast markmiðið um aðeins tveggja stiga hækkun hitastigs frá árinu 1990. Deilt hefur verið um það hver eigi að greiða fyrir kostnaðinn sem hlýst af minni brennslu kolefnaeldsneytis. 

Höfundar skýrslunnar kynntu hana á blaðamannafundi í Berlín í gær
Höfundar skýrslunnar kynntu hana á blaðamannafundi í Berlín í gær Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka