Ef helstu stórborgir Evrópu myndu taka sér Kaupmannahöfn til fyrirmyndar og ná sama hlutfalli hjólreiðafólks á götunum þá gæti það skapað yfir 76.000 störf í grænum samgöngum og bjargað 10.000 mannslífum.
Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (UNECE) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem kynnt var með skýrslu í dag. Stofnanirnar segja að fjárfesting í „grænum og heilbrigðum samgöngum“ hefði því ekki aðeins jákvæð áhrif á heilsu fólks og umhverfið, heldur sé hún einnig hagkvæm.
Skýrslan var kynnt í dag við upphaf ráðstefnu sem UNECE og WHO standa fyrir undir heitinu Samgöngur, heilsu og umhverfið dagana 14. - 16. apríl í París. Þar funda sem evrópskir ráðherrar samgöngu-, heilbrigðis- og umhverfismála um hvernig skapandi samgöngustefna geti skapað atvinnutækifæri og heilbrigðara samfélag.
„Skilvirkt samgöngukerfi er nauðsynlegt fyrir gangverk nútímahagkerfa. Engu að síður er það svo að samgöngumátar geta haft verulega skaðleg áhrif á umhverfi og heilsu. Þess vegna köllum við eftir djarfri Parísaryfirlýsingu þar sem stjórnvöld eru hvött til að fjárfesta í grænum og heilbrigðum samgöngum,“ er haft eftir Zsuzsanna Jakab, svæðisstjóra WHO í Evrópu, í fréttatilkynningu.
Í Evrópu leiðir mengun, sem að stórum hluta stafar af bílaumferð, til tæplega 500.000 dauðsfalla á ári samkvæmt tölum WHO. Þá láta um 90.000 manns lífið í banaslysum í umferðinni í Evrópu. Umferðarhávaði hefur áhrif á líf tæplega 70.000 Evrópubúa og um 24% af losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu má leiða til bílaumferðar. Allt í allt er áætlað að hátt í milljón dauðsföll á ári í Evrópu megi rekja til umferðar.
Heildarkostnaður af neikvæðum áhrifum samgangna á heilsu og umhverfi geta numið allt að 4% af vergri landsframleiðslu Evrópuríkja.
WHO og UNECE vilja horfa til Danmerkur eftir nýjum leiðum í samgöngum. Kaupmannahöfn er hjólreiðahöfuðborg Evrópu, þar eru 26% allra ferða innan borgarinnar farin á reiðhjóli, sem er mun hærra en í flestum öðrum borgum Evrópu.
WHO og UNECE áætla að ef sama hlutfalli væri náð í einni stórborg í hverju Evrópulandi þá myndi það skapa um 76.000 ný störf m.a. við hjólaviðgerðir og sölu á hjólum, fatnaði og fylgihlutum fyrir hjólreiðar sem og við hönnun umferðarmannvirkja í tengslum við hjólreiðar. Að auki myndi það draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tilheyrandi áhrifa á heilsufar.
Í reiknimódeli WHO og UNECE kemur m.a. fram að í Reykjavík sé hlutdeild reiðhjóla um 3% að jafnaði í umferðinni. Ætla megi að yrði hlutfallið 26% líkt og í Kaupmannahöfn myndi það skapa 124 afleidd störf og bjarga 6 mannslífum á ári.