Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, fylgist nú með risavöxnum ísjaka á stærð við Chicago, eftir að hann brotnaði frá Suðurskautslandinu og stefnir á haf út.
Jakinn er kallaður B31 og er einn sá stærsti á jörðinni í dg eða um 660 ferkílómetrar að stærð.
NASA hefur fylgst með jökli á Furueyju (e. Pine Island) frá því að sprunga tók að myndast í honum árið 2011. Óttast var að ef jaki brotnaði frá jöklinum myndi það hækka yfirborð sjávar.
B31 er um 500 metrar að þykkt. Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að hann sé enn ekki á neinum algengum siglingaleiðum. En nú þegar vetur nálgast á svæðinu óttast NASA að erfitt verði að fylgjast með jakanum.
„Ísjakinn er nú kominn út úr Furueyjuflóa og mun brátt fara í almennan straum í suðurhöfum,“ segir Grant Bigg, í háskólanum í Sheffield, í tilkynningu sem NASA sendi út í gær vegna málsins.
Nú er verið að rannsaka hafstrauma í grennd við jakann til að reyna að sjá fyrir ferðir hans. Bigg segir að stundum séu nánast engir straumar í hafinu þar sem jakinn er en stundum séu þeir miklir. Það hafi komið vísindamönnum á óvart.
Jaki af þessari stærð er lengi að bráðna. Sky hefur eftir Robert Marsh vísindamanni við háskólann í Southampton, að það gæti tekið meira en ár.
Stærsti ísjaki sem vitað er um var kallauðr B15 og var 11 þúsund ferkílómetrar á stærð eða svipaður að flatarmáli og Jamaíka. Hann brotnaði frá Suðurskautslandinu í mars árið 2000. Hann brotnaði smám saman í litla jaka sem enn eru sumir hverjir á floti um hafið.