Til að komast þangað þarf að aka eftir malarvegum í átta klukkustundir frá næsta byggða bóli. Í austasta hluta Túrkmenistan er einstakur staður sem fáir vita af þó að fjarsjóðurinn sem þar sé að finna hafi uppgötvast fyrir nokkrum áratugum.
Fáir koma á þennan dularfulla stað í þessu fyrrum ríki Sovétríkjanna. Á hásléttunni í Túrkmenistan, sem kölluð er Risaeðluhásléttan, má finna eitt mikilfenglegasta safn steingervinga af fótsporum risaeðla sem fyrir finnst á jörðinni. Það var ekki fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar sem sovéskir fornleifafræðingar uppgötvuðu þessar minjar.
„Steven Spielberg hefði átt að taka upp Jurassic Park hérna. Hér eru fótsporin eftir risaeðlurnar raunveruleg, ekki gerð í tölvu,“ segir Aman, 35 ára, sem býr í litlu þorpi rétt við sléttuna.
Um 2.500 spor hafa fundist eftir risaeðlur á hásléttunni. Sum eru 40 cm löng og 30 cm breið. Önnur eru jafnvel stærri eða 70 cm löng og 60 cm að breidd. Risaeðlur þurfa að vera um 5-6 metra háar til að geta tekið skref sem eru allt upp í tveir metrar.
Sléttan er ekki síður þekkt fyrir það hversu samfelld slóðin eftir eðlurnar er, eða sú lengsta í heiminum. Sumar slóðirnar eru um 200 metra langar. Það þykir með ólíkindum að risaeðlur hafi haldið til á þessum slóðum en fyrir 150 milljónum ára þegar risaeðlurnar voru uppi var lífríkið og veðurfarið allt annað en það er í dag.
„Fyrir um 145-150 milljónum ára síðan, voru vötn, gróður og hjarðir af risaeðlum meðfram ánum hérna. Þær væru bæði kjöt- og grasætur,“ segir Anatoly Bushmakin, túrkmenskur sérfræðingur í sléttunni. Hann segir að mýrin sem var á þessu svæði hafi þornað á skömmum tíma og því hafi sporin varðveist vel.
Túrkmenistan er eitt einangraðasta land heims. Aðeins örfáir ferðamenn heimsækja landið á hverju ári og fæstir þeirra fara á Risaeðluhásléttuna.
„Það er rétt eins og að risaeðlurnar hafi verið hér fyrir stuttu síðan og ef þú ferð upp í fjöllin getur þú ímyndað þér þær að ganga hér um,“ segir Gulya, 27 ára, sem býr í næsta bæ við hásléttuna.
Hásléttan er rétt við landamæri Túrkmenistan, Afganistan og Úsbekistan. Þangað er ekki einfalt að komast.
Þó að umheimurinn hafi fyrst heyrt af risaeðlusporunum á sjötta áratugnum höfðu íbúar á svæðinu vitað af þeim mun lengur. Þeir vissu reyndar fæstir hvað þetta var.
Þorpið sem stendur næst sléttunni heitir Khodja Pil sem þýðir kraftaverk fílanna. Fílar hafa hins vegar aldrei verið í Túrkmenistan en þjóðsögur um að sporin væru eftir slík dýr eru gamlar. Sagan segir að sporin hafi orðið til er Alexander mikli fór þar um með fílahjörð.
„Það sem er svo einstakt við þessa hásléttu er hversu vel sporin hafa varðveist, það má sjá móta fyrir tám og fylgja slóðinni,“ segir Bushmakin. „Svo mörg spor finnast hvergi í heiminum.“
Túrkmenar vona að svæðið komi til með að draga ferðamenn að landinu. Hásléttan er innan þjóðgarðs sem er umhverfis hæsta fjall landsins, Airybaba sem er 3.319 m hátt. Þar eru líkar miklir fossar, vötn og hellar.
Nú vonast ferðamálaráðherra landsins til þess að UNESCO samþykki að setja svæðið á heimsminjaskrá sína.