Grafa upp stærstu risaeðlu heims

Steingervingafræðingar í Patagóníu í Argentínu hafa uppgötvað steingervinga skepnu sem þeir telja að hafi verið stærsta risaeðla sem gengið hafi á jörðu, svo vitað sé. Skepnan er talin hafa verið af af ættkvísl títanósára, graseðlu með langan háls og hala sem var uppi á Krítartímabilinu, fyrir um 90 milljónum ára.

Vísindamennirnir áætla að risaeðlan hafi vegið meira en 14 Afríkufílar samanlagt, eða um 100 tonn, og hafi verið allt að 40 metra löng. Sá steingervingur sem áður átti stærðarmetið fannst á svipuðum slóðum og er talinn hafa verið af um 36,6 metra langri eðlu, af tegundinni Argentinusaurus.

Stórkostleg uppgötvun fyrir vísindin

Til að sýna stærðarhlutföllin tóku steingervingafræðingarnir mynd af einum þeirra þar sem hann lagðist við hlið lærleggs sem grafinn hefur verið upp, og var leggurinn lengri en maðurinn.

Steingervingafundurinn í Patagóníu er sannkölluð gullnáma fyrir vísindamenn. Auk risa-risaeðlunnar fundust bein a.m.k. 7 annarra risaeðla á staðnum.

„Þetta er stærsti heildarfundur stórrar risaeðlu af þessari gerð í heiminum. Stórkostleg uppgötvun fyrir vísindin,“ hefur Afp fréttastofan eftir einum vísindamannanna, Jose Luis Carbadillo.

Unnið hefur verið að greftri á staðnum síðan í fyrra, en steingervingarnir fundust fyrir tilviljun árið 2011 af bónda á afskekktum bæ í héraðinu Chubut, um 1.300 km suður af höfuðborginni Buenos Aires. Hann kom auga á risastóran legginn, um 2,4 metra langan.

Til viðbótar hafa steingervingafræðingarnir fundið heillega beinagrind skepnunnar allt frá hala, um búkinn og fram í háls. Gefur það nokkuð skýra mynd af því hvernig dýrið hefur litið út á sínum tíma.

Meira í vændum

Að sögn Carbadillo hafa fundist 10 hryggjaliðir úr skrokknum, 40 úr halanum, stórir hlutar úr hálsinum og leggir skepnunnar. Búist er við að fleiri bein muni finnast, því aðeins er búið að grafa upp um 20% af svæðinu.

„Fram til þessa var það sem heimurinn vissi um graseðlur aðeins samtíningur úr brotakenndum steingervingafundum,“ segir Carbadillo og bætir við að þessi fundur sé hreint út sagt ótrúlegur.

Rannsókn á  beinagrindunum mun væntanlega varpa ljósi á ýmislegt annað en aðeins líkamsvöxt hinna fornu risa. Vísindamennirnir hafa líka fundið leifar af því sem þeir telja vera vöðvavef, sem hjálpar þeim að endurskapa vöðvabyggingu dýrsins og reikna út hversu mikla orku hafi þurft til að hreyfa þá.

Þá hafa fundist um 60 tennur á staðnum, þar af eru 57 úr Tyrannotitan kjöteðlum, þekktum hræætum. Ásamt steingerðum laufblöðum og stilkum jurta stuðlar þetta allt að því að vísindamennirnir geti endurskapað vistkerfi Krítartímabilsins. 

Eðlan hefur enn ekki fengið nafn

Sú staðreynd að bein svo margra einstaklinga hafi fundist á sama stað þykir benda til þess að kenningin sé rétt, um að graseðlur hafi lifað í hjörðum. Einnig er hugsanlegt að leitt verði í ljós hverjir náttúrulegir óvinir þeirra voru, hvenær þær drápust og í hvers konar umhverfi þær lifðu.

„Við munum geta gert mjög nákvæmar endurgerðir sem munu svara mörgum spurningum,“ segir Carbadillo. Þar á meðal um hvað það var nákvæmlega í suðurhluta Argentínu sem skapaði góð skilyrði fyrir svo margar tegundir risaeðla.

Nýja, risavaxna eðlan hefur enn ekki fengið nafn en vísindamennirnir stefna að birtingu frumniðurstaðna úr rannsóknum á næsta ári.

Maðurinn er lítill við hlið lærleggsins úr títanseðlunni sem verið …
Maðurinn er lítill við hlið lærleggsins úr títanseðlunni sem verið er að grafa upp í Chubut í Argentínu. AFP
Vísindamennirnir að störfum í Patagóníu. Búist er við að fleiri …
Vísindamennirnir að störfum í Patagóníu. Búist er við að fleiri steingervingar finnist enda aðeins búið að grafa upp um 20% af reitnum. AFP
Vísindamennirnir að störfum í Patagóníu. Búist er við að fleiri …
Vísindamennirnir að störfum í Patagóníu. Búist er við að fleiri steingervingar finnist enda aðeins búið að grafa upp um 20% af reitnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert