Bandaríska fyrirtækið Owlet Care vinnur um þessar mundir að þróun búnaðar sem gerir foreldrum meðal annars kleift að fylgjast með hjartslætti, öndunarhraða og svefnstellingu ungabarna sinna í gegnum snjallsímann.
„Allir foreldrar hafa kynnst því hvernig það er að liggja í rúminu stressaður yfir því hvort barnið sé að anda,“ sagði stofnandi Owlet, Jacob Colvin, í samtali við BBC. „Með því að búa til vörur sem hjálpa foreldrum og auka öryggi barna þeirra leggjum við okkar af mörkum.“
Búnaðurinn er tengdur við barnið í gegnum sokk þess og sendir frá sér streymi upplýsinga um öndun þess og svefn. Foreldrar hafa svo aðgang að þessum upplýsingum í gegnum snjallsíma sína eða annan nettengdan búnað.
Önnur fyrirtæki eru við það að þróa sambærilegan búnað. Þar má nefna fyrirtækið Mimo og eftirlitstæki þeirra sem er tengt við samfesting barnanna og lítur út eins og lítil skjaldbaka. Búnaður af þessu tagi er ekki ókeypis, en byrjunarpakki Mimo kemur til með að kosta tæpa tvö hundruð Bandaríkjadali, jafnvirði um 23 þúsund íslenskra króna.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá fréttinni.