Stærsti geimsjónauki veraldar á fjallstoppi

Teikning listamanns af European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro …
Teikning listamanns af European Extremely Large Telescope (E-ELT) á Cerro Armazones. ESO/L. Calçada

Toppur þriggja kílómetra hás fjalls í Cerro Armazones í Síle verður sprengdur í dag til þess að skapa pláss fyrir heimsins stærsta geimsjónauka. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Sjónaukinn er kallaður E-ELT (European-Extremely Large Telescope), sem stendur einfaldlega fyrir „gríðarstór evrópskur sjónauki“. Yfir milljón tonn af grjóti verða sprengd á fjallstoppnum til þess að skapa sléttan grunnflöt undir sjónaukann, en spegill í miðju hans verður á stærð við hálfan knattspyrnuvöll.

Talið er að bygging sjónaukans muni taka tæp tíu ár og segja forsvarsmenn verkefnisins að hann muni gefa mönnum mun dýpri og betri sjón á alheiminn. Aðalspegill sjónaukans verður 39 metra breiður og verður ein helsta áskorun vísindamanna að koma honum fyrir. Sjónaukinn mun fanga fimmtán sinnum meira ljós en nokkur annar sambærilegur sjónauki auk þess sem hann mun skapa sextán skýrari myndir en hinn þekkti Hubble geimsjónauki.

Aðstæður í Cerro Armazones þykja henta fullkomlega fyrir sjónaukann, en þar er heiðskírt bróðurpart ársins. Aðstandendur verkefnisins segja að sjónaukinn muni veita vísindamönnum sýn að hinum sjáanlegu mörkum alheimsins og vonast til að hægt verði að greina hvenær „kveikt var á alheiminum“.

Sjónaukinn er samstarfsverkefni fimmtán landa og mun bygging hans kosta yfir milljarð evra.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert