Næsti bíll NASA mun búa til súrefni á Mars

Marsbíllinn 2020 - Bíllinn verður vel útbúinn og á að …
Marsbíllinn 2020 - Bíllinn verður vel útbúinn og á að lenda á Mars 2021. Mynd frá NASA

Næsti bíll sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA sendir til Mars mun gera tilraun til að framleiða súrefni á plánetunni þegar hann lendir þar árið 2021, samkvæmt frétt BBC. Verður hann sendur frá Jörðu 2020 vegna æskilegrar stöðu plánetnanna á sporbaug sínum um Sólu, samkvæmt yfirliti NASA.

Bíllinn mun sinna sjö ólíkum vísindaverkefnum þegar á áfangastað er komið, sem er öllum ætlað að undirbúa frekar mannaða för til plánetunnar, þar á meðal er honum ætlað að leita ummerkja lífs á plánetunni.

Hann verður útbúinn búnaði sem breytir koltvísýring, sem mikið er af á þunnu andrúmslofti plánetunnar, í súrefni. Tilgangur þessa er tvíþættur, en auk þess sem það yrði gagnlegt við framleiðslu eldflaugaeldsneytis á plánetunni munu geimfarar þurfa á súrefnisbyrgðum að halda þegar til Mars er komið. 

Auk þess mun myndavélabúnaður, veðurstöð og ýmis annar búnaður prýða bílinn. „Þetta er spennandi dagur fyrir okkur,“ er haft eftir John Grunsfeld hjá NASA, sem tilkynnti um áformaðan vísindaleiðangur til Mars 2020 í Washington á dögunum.

Frá þessu greinir BBC, fréttastofa breska ríkisútvarpsins. Sjá einnig tilkynningu NASA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert