Tölvuleikir geta virkað alveg jafn vel og lyfjagjöf á þunglyndi meðal aldraðra. Og jafnvel betur. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar bandarískra og kínverskra vísindamanna sem birtar voru í dag.
Þátttakendur voru á aldrinum 60 til 89 ára og áttu það sameiginlegt að hefðbundin þunglyndislyf höfðu ekki virkað á þá sem skyldi. Eftir fjórar vikur við spilun tölvuleikja jókst heilavirkni þeirra hins vegar til muna. Unnið var með þá tilgátu að auka megi virkni eldri heila með strangri þjálfun og að betra minni og aukin hæfni til ákvarðanatöku leiði til betri líðan.
Fyrri rannsóknir höfðu sýnt að þunglyndislyf hafa minni virkni sé fólk með ákveðnar heilaskemmdir. Lyf eru þá oft lengi að virka og sýna rannsóknir að þau hafa einungis teljandi áhrif á líðan um þriðjungs eldri borgara.
Á fjórum vikum létu vísindamennirnir ellefu einstaklinga spila tölvuleiki og gerðu á þeim rannsóknir á meðan. Niðurstöðurnar báru þeir saman við hóp þrjátíu og þriggja einstaklinga á sama aldri sem einungis fengu hefðbundin þunglyndislyf, en spiluðu ekki tölvuleiki. Samanburðurinn sýndi að tölvuleikirnir höfðu jafn góð áhrif og á styttri tíma en 72% þeirra sem spiluðu tölvuleiki sýndu engin merki þunglyndis að rannsókn lokinni.
Þá kemur einnig fram að tölvuleikirnir höfðu varanlegri áhrif þar sem þeir juku á langtímavirkni heilans.
Tekið var þó fram að rannsóknin hafi verið lítil í sniðum og að gera þyrfti stærri rannsókn með fleiri þátttakendum en slíkt mun þegar vera í burðarliðnum.
Sjá nánar um rannsóknina hér.