Norskir vísindamenn sem einnig eru hjón, May-Britt og Edvard Moser, og bresk/bandaríski vísindamaðurinn John O'Keefe fengu í dag Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir að uppgötva „innra staðsetningarkerfi“ sem gerir fólki kleift að átta sig á rýminu í kringum sig.
„Uppgötvanir Johns O’Keefe, May-Britt Moser og Edvard Moser hafa leyst erfiða ráðgátu sem heimspekingar og vísindamenn hafa glímt við öldum saman,“ sagði nefndin þegar tilkynnt var um valið í morgun.
„Hvernig getur heilinn kortlagt rýmið í kringum okkur og hvernig getum við komist leiðar okkar í gegnum flókið umhverfi?“
Uppgötvanir þeirra geta orðið að miklu gagni í taugalyflækningum, einkum í meðferð við Alzheimerssjúkdómnum, en erfiðleikar við að rata, einkum á ókunnugum stöðum, eru á meðal fyrstu einkenna hans.
May-Britt Moser sagði Nóbelsnefndinni að hún væri í áfalli og að eiginmaður hennar vissi ekki einu sinni um verðlaunin þar sem hann væri í flugvél á leið til München.
„Við deilum sömu sýn, við elskum skilning og öðlumst hann með því að tala saman, tala við annað fólk og síðan að reyna að takast á við það sem við höfum áhuga á - á þann veg sem við teljum bestan,“ sagði hún,
John O'Keefe er fæddur árið 1939, May-Britt Moser árið 1963 og Edvard Moser árið 1962. Þau deila með sér verðlaunum, alls 8 milljónum sænskra króna en helmingur þess rennur til O'Keefe. Verðlaunaathöfnin er líkt og venjulega þann 10. desember í Stokkhólmi, á dánardegi Alfreðs Nóbels.