Bandaríkjaþing verður enn andsnúnara aðgerðum til að sporna við loftslagsbreytingum en hingað til eftir að repúblíkanar náðu meirihluta í báðum deildum í kosningunum sem fóru fram í gær. Þeir eru flestir áhugalausir um málið en margir þeirra hafna hreinlega vísindunum að baki.
Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 42-71% miðað við losun ársins 2010 fyrir miðja þessa öld til að koma í veg fyrir að verstu loftslagsbreytingarnar verði ekki að veruleika. Eftir því sem lönd heims fresta því lengur, því erfiðara og kostnaðarsamara verður að stöðva hættuna.
Hópar umhverfisverndarsinna eyddu töluverðum fjármunum í kosningabarátunni vestra. Þannig varði milljarðamæringurinn Tom Steyer til dæmis 57 milljónum dollara til að fá fólk til að láta sig loftslagsbreytingar varða. Hvorki það né meiriháttar náttúruhamfarir á borð við fellibylinn Sandy né gríðarlegir þurrkar sem hafa þjakað stóran hluta landsins breyttu þó neinu um úrslitin.
Til að byrja með mun breytt samsetning þingsins ekki hafa mikil áhrif. Flestar aðgerðir bandarískra stjórnvalda í loftslagsmálum fara í gegnum umhverfisstofnun landsins sem þarf ekki heimild þingsins til að halda áfram með þær. Jafnframt er búist við því að Barack Obama forseti muni beita neitunarvaldi sínu gegn hvers kyns tilraunum repúblíkana til að vinna gegn þeim, að því er kemur fram á vefmiðlinum Vox.
Vandamálið kemur hins vegar fram þegar ráðast þarf í nýjar aðgerðir í loftslagsmálum. Umtalsverður fjöldi þingmanna repúblíkana neitar enn að viðurkenna að loftslagsbreytingar af völdum manna eigi sér stað yfir höfuð. Að öðru leyti gefa þeir málefninu almennt lítinn gaum. Því er ólíklegt að Bandaríkjaþing muni grípa til nokkurra aðgerða í loftslagsmálum, að minnsta kosti næstu tvö árin þangað til kosið verðum um hluta af sætunum í öldungadeildinni á nýjan leik, og hugsanlega lengur.
Í millitíðinni heldur losun manna á gróðurhúsalofttegundum áfram að aukast ár eftir ár. Ríki heims hafa komið sér saman um að halda þurfi hlýnun jarðar innan við 2°C en miðað við núverandi losun stefnir í að hún verði á bilinu 3,7-4,8°C. Það hefði meðal annars í för með sér hækkandi yfirborð sjávar og meiri líkur á öfgakenndu veðri. Ófyrirséð er hvort að menn eða vistkerfi jarðarinnar næðu að aðlagast breytingunum sem gætu átt sér stað á tiltölulega skömmum tíma.